header

Andrés Kristjánsson:

Iðnaðarmannafélag Suðurnesja

I. hluti --- II. hluti --- III. hluti

Hitaveita Suðurnesja

Húshitunarmál hafði nokkrum sinnum borið á góma í Iðnaðarmannafélaginu á árunum fyrir 1970, og var þá stundum rætt um möguleika á rafmagnshitun. Sá kostur þótti þó aldrei sérlega álitlegur. Hins vegar var talið að jarðvarmaveita væri miklu ákjósanlegri ef nægilegt heitt vatn fengist í nálægð. Um það var þó ekki gerla vitað, því að litlar rannsóknir höfðu átt sér stað og því nær engar tilraunaboranir verið gerðar nema syðst og vestast á Reykjanesi. Ýmsir töldu þó engan veginn útilokað að heitt vatn mætti finna í nánd við Keflavík og fleiri þéttbýliskjarna og þyrfti að kanna það með borun.

Iðnaðarmannafélagið hélt fræðslufund 6. mars 1971. Þann fund hafði deild pípulagningamanna undirbúið og réð umræðuefninu, en formaður hennar þá var Ásbjörn Guðmundsson. Hafði deildin fengið sem framsögumann Kristján Sæmundsson, jarðfræðing, „til að skýra fundarmönnum frá niðurstöðum jarðhitarannsókna og hvaða horfur væru framundan í hitaveitumálum Suðurnesjamanna".

Erindi þetta var gagnmerkt og má segja að það hafi komið úrslitahreyfingu á þetta mál. Niðurstaða frummælanda var sú, að sterkar líkur bentu til þess, að á þúsund metra dýpi undir hinu þykka grágrýtislagi á Rosmhvalanesskaga væri um 100 stiga heitt vatn að finna, þó líklega nokkuð salt. Þessa skoðun byggði hann bæði á viðnámsmælingum og könnunarholu sem boruð hafði verið á Njarðvíkurheiði. Þetta væri þó ekki hægt að fullyrða fyrr en boruð hefði verið rannsóknarhola niður á þúsund metra dýpi. Um þessi mál ræddu einnig Kári Þórðarson, rafveitustjóri, og Jóhann Einvarðsson, bæjarstjóri, sem voru gestir fundarins og síðan ýmsir félagsmenn.


Samþykkt

Eftir miklar umræður kom fram og var samþykkt einróma þessi ályktun: „Almennur fundur í Iðnaðarmannafélagi Suðurnesja um þróun hitaveitumála á Suðurnesjum, haldinn laugardaginn 6. mars 1971, samþykkir að beina þeim tilmælum til bæjar og sveitarfélaga á Suðurnesjum að sameinast um að hafnar verði reynsluboranir í leit að heitu vatni vegna Suðurnesjahitaveitu. Fundarmenn tefja eðlilegt að málinu verði vísað til samstarfsnefndar sveitarfélaganna og skorar á hana að taka nú þegar til starfa, svo vænta megi árangurs á þessu ári".
Iðnaðarmannafélagið ráðgerði að fylgja nú málinu eftir með því að boða til almenns borgarafundar um það, en af því varð ekki, því að skriður komst á það meðal sveitarfélaganna fyrr en menn höfðu þorað að vona.
Bæjarstjórn Keflavíkur hélt fund um hitaveitumál 18. mars og fékk Kristján Sæmundsson til þess að flytja erindi um það, svo og Ísleif Jónsson, forstöðumann jarðborunardeildar Orkustofnunar.

Þessi bæjarstjórnarfundur samþykkti að beita sér fyrir því að hannaðar yrðu framkvæmdir við borholu í Keflavík með það fyrir augum að leita vatns til hitaveitu í Keflavík og nágrenni.

Niðurstaða athugana, bæði á vegum sveitarfélaganna á Suðurnesjum og jarðhitadeildar Orkustofnunar, varð þó að hafin var tilraunaborun á Svartsengi. Kom þá í ljós að þar var geysimikil hitaorka. Jarðhitadeildin gerði áætlun um varmaveitu þaðan er fullnægði hitaþörf þéttbýlisins á Reykjanesi sunnan Hafnarfjarðar. Þó var alls ekki talið útilokað að fá mætti heitt vatn nær Keflavík og einnig í nánd við aðra þéttbýlisstaði á nesinu, en slík vatnsleit hlyti að verða dýr og óviss. Því var talið hyggilegra að virkja hitann á Svartsengi, bæði til vatnshitaveitu og rafmagnsframleiðslu, þótt aðfærsluæðar yrðu lengri. Þetta varð nokkurn veginn ljóst á árinu 1972. Sveitarfélögin á Suðurnesjum höfðu þá myndað með sér framkvæmdanefnd í málinu. Nokkur ágreiningur varð þó enn uppi um það, hvort miða ætti rannsóknir við að ná heitu vatni í nánd við helstu þéttbýliskjarnana eða snúa sér þegar alfarið að Svartsengi eins og Orkustofnun taldi álitlegast.

Fjármagnsþörfin vandamál

En augljóst var, að nú var fjármagnsþörfin erfiðasta vandamálið.
Um mitt ár 1973 höfðu verið boraðar fleiri rannsóknarholur á Svartsengi og lofuðu allar góðu, og töldu nú flestir að hitaveita á allt svæðið væri einboðin þaðan. Sveitarfélögin voru farin að undirbúa sameiginlegt fyrirtæki um varmaveituna og vildu þau vera sem óháðust ríkisvaldinu. Þörfin knúði æ fastar á, því að olíuverðið fór síhækkandi. Iðnaðarmannafélagið fylgdist vel með málinu, ætíð tilbúið að styðja það þegar mest reið á og halda við áhuganum um það. Tveir menn höfðu þar einkum forystu, Eyþór Þórðarson, formaður félagsins, og Ásbjörn Guðmundsson, formaður deildar pípulagningamanna.

Rannsóknum og undirbúningi málsins var haldið áfram af kappi allan síðari hluta ársins 1973. Á fjárlögum ríkisins 1973 voru ætlaðar 15 millj. kr. til framkvæmda á Svartsengi og 18 milljónir 1974. Hvít bók var gefin út um rannsóknir, áætlanir og framkvæmdir 1973.

Í árslok var haldinn undirbúningsfundur sveitarfélaganna að stofnun sameignarfélags um virkjun á Svartsengi og lagningu veituæða þaðan. Verkfræðingar Orkustofnunar töldu þá að með góðum framkvæmdahraða ætti að vera hægt að hleypa heitu vatni á hús í þéttbýlinu um áramótin 197576, og var þá gert ráð fyrir að hitakostnaður yrði um 50% af olíuhitunarverði.

Þegar hér var komið hafði iðnaðarráðuneytið falið verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen að gera „könnun á því hvernig unnt sé með skjótustum hætti að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu til húshitunar", svo að auðséð var að nýr skriður var að komast á þessi mál. Í skýrslu Sigurðar kom meðal annars fram, að lögn hitaveitu frá Svartsengi til þéttbýlisstaðanna á utanverðu Reykjanesi væri álitleg og hagkvæmt að flýta henni.

Eftir þetta var unnið að málinu af miklum hraða bæði af sveitarfélögunum, Orkustofnun og iðnaðarráðuneytinu. Gengið var frá samningum milli sveitarfélaganna um málið og stofnuð sameiginleg hitaveitunefnd þeirra. Samið var við Fjarhitun um hönnun dreifikerfa undir stjórn Karls Ómars Jónssonar, verkfræðings, og á fyrri hluta árs 1974 var hafin efnispöntun. Allar áætlanir voru við það miðaðar að hægt yrði að hleypa vatninu á hitakerfi húsa 1. janúar 1976. Sú áætlun stóðst vel.

Meðan á athugun og framkvæmdum stóð ræddi Iðnaðarmannafélagið alloft um hitaveitumálin og einstaka þætti þeirra. í febrúar 1974 var haldinn langur fundur um hitaveitumál, einkum um möguleika á kaupum á stórum jarðbor, og ýmis fleiri atriði hitaveitu. Þessi bormál voru enn rædd á félagsfundi í maí, og ýtti þetta mjög á eftir því, að Orkustofnun aflaði sér tækja til borunar þar syðra.

Iðnaðarmannafélag Suðurnesja átti því frumkvæði að því á sínum tíma, að hitaveitumál félagssvæðisins voru tekin upp á heppilegum tíma og vakti áhuga og samstöðu um þau í sveitarfélögunum. Síðan fylgdi það málinu jafnan fast eftir og reyndi að greiða fyrir því á allan hátt allt til loka.

Innra félagsstarf

Í söguþáttum af starfi Iðnaðarmannafélags Suðurnesja hér að framan hefur einkum verið fjallað um ytra starf þess ef svo má segja, svo sem stéttarmálefni, almenn iðnaðar og atvinnumál Suðurnesja, fræðslu, fundaefni, og framfaramál af mörgu tagi.

Hér á eftir verður greint lítillega og nánar frá innra starfi félagsins, sjóðum á vegum þess, þjónustu við félagsmenn, félagsheimili og starfseminni þar, menningarviðleitni, skrifstofuhaldi, afmælum, árshátíðum og öðrum skemmtunum. Þá verður einnig sagt frá þátttöku í landssamtökum iðnaðarmanna o. fl.

Húsakostur félagsins

Lengi framan af starfsárum Iðnaðarmannafélagsins hafði það ekki fast húsnæði til starfsemi sinnar og átti ekkert félagsheimili. Það hélt fundi sína á ýmsum stöðum þar sem húsnæði var fáanlegt, og stjórnin og nefndir félagsins höfðu sama hátt á, komu saman í skrifstofum fyrirtækja iðnaðarmanna, á heimilum formanna eða annarra stjórnar og nefndarmanna og víðar, jafnvel á verkstæðum og kaffistofum á vinnustöðum eða í veitingastofum.

Þetta varð að sjálfsögðu óviðunandi til lengdar þegar félagið stækkaði og starfsemin óx. Því komu snemma upp raddir um það, að félagið ætti að leigja sér eða eignast húsnæði, þar sem hægt væri að hafa bækistöð, halda fundi, geyma gögn og veita félagsmönnum ýmsa nauðsynlega þjónustu í skrifstofu sem opin væri á ákveðnum tíma.

Húsnæðismál félagsins bar að sjálfsögðu oft í ræður manna á fundum á fyrstu tveimur áratugunum, en það leiddi ekki til ákveðinnar áætlunar eða framkvæmda, enda var fjárhagslegt bolmagn félagsins lítið og það enn fámennt á þeim árum.

Á aðalfundi félagsins 1956 voru húsnæðismálin þó rædd með nokkuð ákveðnari hætti en áður hafði verið. Þá komu fram raddir um að félagið yrði að stefna að því að eignast félagsheimili. Áður hafði verið borin fram sú tillaga í félaginu, þegar kennsla var lögð niður í gamla barnaskólahúsinu í Keflavík, að félagið reyndi að fá húsið til sinna nota, helst kaupa það og endurbæta, svo að hægt væri að nota það sem félagsheimili, og fá þar um leið húsnæði fyrir iðnskólann. Þetta rann þó út í sandinn, annað hvort vegna þess að félagið hafði ekki bolmagn til þess eða þessi lausn hefur ekki þótt nógu heppileg þegar hún var skoðuð nánar.

En á aðalfundinum 1956 var í fyrsta skipti rætt um það í alvöru að byggja félagsheimili, og var meðal annars stungið upp á því, að félagsgjöld yrðu hækkuð mjög verulega í því skyni að láta hluta þeirra renna í byggingarsjóð félagsheimilis.


Vafaraddir koma fram

Vafaraddir komu þó fram á fundinum, og töldu sumir að félagið mundi seint hafa bolmagn til þess að reisa slíkt hús eitt, og ráðlegra væri að huga að boðum sem félaginu höfðu borist um þátttöku í byggingu félagsheimilis með öðrum félögum í Keflavík, og þá ekki síst með hliðsjón af fáanlegum styrk úr Félagsheimilasjóði til slíkra bygginga. Þar gæti Iðnaðarmannafélagið síðan fengið félagsaðstöðu. Það kom einnig fram í ræðum manna á þessum fundi, að til lítils væri að ræða um byggingu félagsheimilis meðan félagið væri svo illa statt fjárhagslega, að það hefði varla efni á að senda fulltrúa sinn á iðnþing. Engar ákvarðanir voru teknar um málið í þetta sinn.

Félagsheimilismálinu var næst hreyft á félagsfundi í okt. 1957 og kom þar fram, að ekki mætti gefa hugmyndina á bátinn, þótt ekki blési byrlega að sinni, því að góður samtakamáttur gæti miklu til vegar komið með litlum fjármunum. Minnst var á það, að verktakasamsteypan, sem þá hafði verið stofnuð fyrir nokkru, mundi ef til vill geta stutt þetta mál og létt róðurinn. Áhugi var töluverður um þetta efni á fundinum.

Á félagsfundi í janúar 1958 skýrði formaður félagsins frá sameiginlegum fundi sem haldinn hefði verið af fulltrúum 20 félaga og samtaka um samstarf að byggingu almenns félagsheimilis í Keflavík. Rætt hafði verið um staðarval hússins og lóð undir það, hlutdeild einstakra félaga í byggingarkostnaði og samstarf við Njarðvíkinga um bygginguna. Gert var ráð fyrir, að félögin greiddu 30% af byggingarkostnaði sameiginlega eftir nánari skiptingu milli þeirra eftir stærð.

Andmælaraddir komu þegar fram gegn þátttöku Iðnaðarmannafélagsins í þessari félagsheimilisbyggingu og talið að það myndi ekki leysa húsnæðismál félagsins að gagni. Þó þótti ljóst að Iðnaðarmannafélagið gæti ekki skorast undan þátttöku í þessu félagasamstarfi, og var tillaga um hana samþykkt samhljóða. Gekk það mál síðan sinn gang, en Iðnaðarmannafélagið hélt áfram undirbúningi að því að leysa sín húsnæðisvandamál.

Eigið félagsheimili

Næstu árin varð að hafa sama hátt á og áður um fundahöld á hrakhólum, og skrifstofa komst ekki á laggir hjá félaginu. En eftir skipulagsbreytingar 1965 og aukningu sem þá átti sér stað í starfseminni mátti ekki lengur við svo búið sitja.

Þegar mælingastofan var sett á stofn á miðju ári 1965 var gert ráð fyrir, að þar yrði jafnframt innt af hendi nokkur þjónusta við félagsmenn önnur, og ýmislegt starf unnið fyrir félagið, eins og áður segir. Þetta var líka gert á fyrsta árinu, en þótti síðan ekki samrímast nógu vel starfi mælingamannsins, og var skilið þarna á milli. Félagið hafði þó um sinn nokkra aðstöðu í mælingastofunni til félagsþjónustu, sem stjórnarmenn eða aðrir leystu af hendi. Því má segja, að mælingastofan að Klapparstíg 7 í Keflavík væri fyrsta félagshúsnæðið, og síðar að Hafnargötu 26. En hugmyndinni um að félagið eignaðist eigið húsnæði fyrir starfsemi sína var haldið vakandi, og málið rætt á stjórnar og fulltrúaráðsfundum á árunum 1966 og 1967.

Á félagsfundi 6. júlí 1966 kom þar, að samþykkt var að kaupa efstu hæð hússins Tjarnargata 3 í Keflavík af Þórarni Ólafssyni, áður formanni félagsins. Hæð þessi var 160 fermetrar að stærð og óinnréttuð. Kaupverðið var 700 þús. kr. og félagssjóður gat greitt 200 þús. af því við undirritun samnings. Á þessum árum var kjörin hússtjórn, Ásbjörn Guðmundsson, Eyjólfur Þórarinsson og Guðmundur B. Jónsson. Síðan var unnið að því á árinu 1967 að afla lánsfjár, gera teikningar að innréttingum og hefja smíði þeirra, mest í sjálfboðavinnu félagsmanna, sem voru örlátir á hana. Samningur um þessi húsakaup var undirritaður 3. des. 1966.

Verklegar framkvæmdir við innréttingar húsnæðisins hófust í apríl 1967 með verki múrara þar, en síðan kom hver iðnaðarstéttin af annarri til starfa eftir því sem verkinu miðaði fram og að kallaði.

Innréttingunum var að mestu lokið í ársbyrjun 1968, og 9. mars það sama ár. var þetta nýja og langþráða félagsheimili tekið í notkun og vígt með viðhöfn. Þarna var góður og allstór fundarsalur og ein fjögur skrifstofuherbergi, sem félagið hafði til eigin afnota og leigu. Innheimtuskrifstofa iðnaðarmanna, sem sett var á laggirnar um þessar mundir, fékk þarna húsnæði, svo og mælingastofan og Jón Jakobsson, lögfræðingur, hafði þar lögmannsstofu sína nokkur ár, en síðan Garðar Garðarsson, lögfræðingur, og nú er þar Páll Bjarnason, arkitekt. Á árinu 1972 eignaðist félagið meira af húseigninni Tjarnargötu 3 er það keypti hluta af kjallara og bílskúrsréttindi.

Þarna hefur félagið síðan haft heimili sitt og skrifstofur og haldið fundi sína, en salurinn hefur einnig verið lánaður eða leigður ýmsum öðrum aðilum til fundahalds. Bæjarstjórn Keflavíkur hefur til að mynda haldið þar fundi sína um langt árabil. Þar hefur einnig verið haldinn fjöldi sýninga af ýmsu tagi, enda má segja að þar hafi verið eini listsýningarsalur bæjarins. í húsinu er eldhús og félagið á áhöld til veitinga þar.

Sjóðir í umsjá félagsins

Framan af árum safnaði Iðnaðarmannafélagið ekki miklum sjóðum. Árgjöld voru höfð lág, fjárhagsgeta félagsmanna ekki mikil og sjóðasöfnun innan stéttar og starfsmannafélaga ekki orðin almenn í landinu, eða það sjónarmið ekki farið að knýja mjög á. En þetta hefur breyst með árunum. Félagið á nú nokkrar eignir í húsum, áhöldum og félagssjóði. Lífeyrissjóður og styrktarsjóður hafa komið til sögu. Félagið annast nú tvær lífeyrissjóðsdeildir iðnaðarmanna á Suðurnesjum og hefur ýmis tryggingaumboð er einkum snerta iðnað og iðnverk.


Almennur lífeyrissjóður iðnaðarmanna

Afskipti félagsins af lífeyrissjóðsmálum iðnaðarmanna á Suðurnesjum hófust 1962, en þó hafði þau mál stundum borið á góma áður, til að mynda á sameiginlegum fundi Iðnaðarmannafélagsins og Iðnnemafélagsins í nóv. 1959. Á Iðnþingi 1962 voru lífeyrissjóðsmálin mjög til umræðu, og í skýrslu sinni á aðalfundi Iðnaðarmannafélagsins 1963 ræddi formaðurinn, Þorbergur Friðriksson, allmikið um þá umfjöllun, og Eyþór Þórðarson, sem einnig var fulltrúi á landsfundinum, flutti þar erindi um „stofnun allsherjar lífeyrissjóðs iðnaðarmanna um landið allt á vegum Landssambands iðnaðarmanna". Eyþór hafði átt sæti í undirbúningsnefnd málsins á síðasta Iðnþingi.

Þessi almenni Lífeyrissjóður iðnaðarmanna var síðan stofnaður árið 1963, og tók til fullra starfa 1. jan. 1964 en ýmis iðnaðarmannafélög höfðu þá stofnað eigin sjóði sem störfuðu áfram eða urðu deildir í allsherjarsjóðnum. Suðurnesjadeild sjóðsins var stofnuð snemma árs 1964 og tók til starfa í ársbyrjun 1965, og á aðalfundi 1966 var flutt fyrsta skýrsla um starfsemi sjóðsins. Árið 1969 voru sjóðfélagar orðnir um eitt hundrað. Heildariðgjaldagreiðslur í deildina námu það ár 875 þús. kr. eða um 26% af heildariðgjöldum Lífeyrissjóðs iðnaðarmanna. Þá höfðu verið veitt byggingalán til 12 sjóðfélaga á Suðurnesjum. Árið 1972 voru sjóðfélagar á Suðurnesjum orðnir 130 og 44 lán höfðu þá verið veitt.

Séreignarlífeyrissjóður félagsins

Á árunum 1970-71 fór fram ýtarleg athugun og kynning á lífeyrissjóðsmálum iðnaðarmanna. Kom þá í ljós, að varla yrði að vænta mikillar fjölgunar í almenna lífeyrissjóðnum á næstu árum og voru ástæður aðallega þær, að mörg launþegafélög höfðu þá stofnað eigin lífeyrissjóði og margir iðnaðarmenn kusu heldur að vera í þeim en almennum sjóði. Varð þá einnig ljóst að Iðnaðarmannafélag Suðurnesja gæti stofnað sjóð, sjálfstæðan og með séreignartilhögun alveg í umsjá félagsins. Aðalfundur félagsins samþykkti þá 1971 „að fela stjórn félagsins að vinna að stofnun lífeyrissjóðs með séreignartilhögun." Eyþóri Þórðarsyni var þá falið að undirbúa málið með aðstoð tryggingafræðings, og var reglugerð samin og samþykkt á aðalfundi félagsins 1. júní 1972, en fjármálaráðuneytið staðfesti hana í júlí sama árið.

Lífeyrissjóður Iðnaðarmannafélags Suðurnesja tók formlega til starfa þá þegar, og átta stofnaðilar greiddu árstillag sitt fyrir árið 1972, en gert var ráð fyrir að um 50 aðilar sem stunduðu sjálfstæða atvinnu yrðu fljótlega sjóðfélagar.

Þegar séreignarlífeyrissjóður Iðnaðarmannafélagsins var stofnaður, voru um 150 iðnaðarmenn á Suðurnesjum félagar í almenna lífeyrissjóðnum, en talið að allt að 100 iðnaðarmenn þar hefðu ekki gengið í hann vegna þess að þeir kysu heldur aðild að séreignarsjóði. Síðan hafa báðar lífeyrissjóðsdeildirnar starfað samhliða í umsjá Iðnaðarmannafélagsins.


Jafnræði í tryggingum ríkisins

Á árunum 197071 þegar endurmat og kynning á lífeyrisréttindum iðnaðarmanna fór fram voru einnig ofarlega á baugi á Alþingi hugmyndir og tillögur um stofnun eins lífeyrissjóðs fyrir landið allt og hugðu iðnaðarmenn gott til þess. Þó fór svo að þessar hugmyndir lögðust í dvala sem varir enn. í umræðum um trygginga og lífeyrismálin kom það mjög í ljós, hve réttur manna var misjafn í þessum málum og misræmi mikið í lífeyrisréttindum. Eyþór Þórðarson, sem mjög hefur látið íífeyrismál iðnaðarmanna til sín taka, ræddi þessi viðhorf ýtarlega á aðalfundi félagsins 1970 og flutti þá eftirfarandi tillögu, sem samþykkt var einróma:

„Aðalfundur Iðnaðarmannafélags Suðurnesja, haldinn 2. maí 1970, skorar á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því, að allir landsmenn njóti sama réttar til allra tryggingabóta, sem stofnað hefur verið til, eða kann að verða stofnað til, vegna aðgerða ríkisstjórnar eða Alþingis, þar sem slíkar bætur eru að miklu og oft öllu leyti kostaðar af almannafé.
Fundurinn lýsir jafnframt yfir stuðningi við allsherjar lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn og skorar á ríkisstjórnina að hraða framkvæmd þess máls".

Ástæða til þessarar ályktunar kemur fram í greinargerð þar sem segir að Alþingi hafi æ ofan í æ samþykkt lög, flutt af ríkisstjórn eða fyrir atbeina hennar, þar sem félagshópum eru veitt ákveðin forréttindi, og megi nefna sem dæmi lög um atvinnuleysistryggingar og lög um eftirlaun aldraðra í verkalýðsfélögum. Hljóti að vera hæpið að binda slík réttindi við ákveðnar stéttir eða félagshópa, þar sem þau séu að verulegu leyti kostuð af almannafé. Þessum lögum og fleiru þurfi því að breyta á þann veg að þau nái til allra landsmanna.

 

Styrktar og sjúkrasjóður

Iðnaðarmannafélagið hefur haft sjúkra og styrktarsjóð alllengi, en hann var vanmegnugur og starfslaus lengi framan af árum. Síðustu fimmtán árin hefur hann þó eflst mjög og orðið að góðu gagni. Upphaf þessa sjóðs er það, að 30. ágúst 1942 kaus fundur í félaginu þriggja manna nefnd til þess að gera tillögur um félagsgjald í samræmi við þáverandi kaupgjald og sömuleiðis að athuga möguleika á því að stofna styrktarsjóð í félaginu. Þessa nefnd skipuðu Kristinn Guðmundsson, Bergsteinn Sigurðsson og Sören Valentínusson. Þetta var vísirinn.


Nefndin skilaði tillögum sínum rúmri viku síðar. Hún lagði til að sjóðurinn yrði stofnaður og stofnfjár yrði aflað með því að efna til skemmtisamkomu, en síðan fengi hann þann fasta tekjustofn að hver félagi greiddi sem svaraði kaupgjaldi á einni klukkustund mánaðarlega. Miklar umræður urðu og m. a. stungið upp á að nota þennan sjóð til þess að koma á iðnkennslu, en að lokum var samþykkt að hver félagsmaður greiddi 50 kr. í sjóðinn sem stofngjald. Ekki varð af meiri fjáröflun að sinni, en 1944 skilaði Bergsteinn til gjaldkera 850 kr. sem safnast höfðu í sjóðinn. Þetta var 13 árum áður en gjald vinnuveitenda í sjúkrasjóði var ákveðið í samningum. Sjóðnum höfðu þá ekki verið settar fastar starfsreglur.

Það munu hafa verið þessar 850 kr. og vextir af þeim sem voru innistæða í sparisjóðsbók þeirri sem gjaldkeri félagsins minnti á árið 1954 á aðalfundi félagsins um leið og hann varpaði fram þeirri spurningu, hvort félagsmenn vildu ekki fara að huga að eflingu þessa sjóðs.

Á næstu fimm árum var málinu af og til hreyft á fundum, en samstaða náðist ekki um að hrinda því fram. Sjúkra og styrktarsjóðir voru þá til í nær öllum iðnaðarmannafélögum á landinu og höfðu margir starfað lengi og voru orðnir öflugir með föstum tekjustofnum. Iðnnemafélagið á Suðurnesjum hafði haft sjúkrasjóð í áratug. Tekjur slíkra sjóða höfðu í fyrstu verið hluti af ársgjaldi en í samningum eftir verkföllin 1955 var ákveðið að vinnuveitendur greiddu 1% af launum í sjúkra og styrktarsjóði starfsmanna.

Á aðalfundi félagsins 1959 urðu miklar umræður um sjúkrasjóðsmálið og voru skoðanir enn skiptar um það. En fundurinn samþykkti tillögu frá Eyþóri Þórðarsyni um það að „stofnaður verði sjúkrasjóður innan félagsins í samræmi við lög og það sem tíðkast í öðrum félögum". Ekki komst málið þó fullkomlega í höfn á allra næstu árum, en sjóðurinn átti þó að heita til. En 15. ágúst 1966 ákvað stjórn félagsins að beita sér þá þegar fyrir eflingu sjóðsins, sem þá var mjög óverulegur. Var þá stjórnum allra sérfélaganna ritað bréf um málið og óskað eftir ákvörðunum þeirra. Lagt var til, að lagt yrði 1% á uppmælingar er rynni í styrktarsjóðinn, og samið yrði við vinnuveitendur í iðnaði um að greiða 1% af launum starfsmanna utan uppmælinga í styrktarsjóð og í þriðja lagi yrði greitt fast gjald í sjóðinn fyrir þá sem vildu vera í honum en voru ekki gjaldskyldir samkvæmt fyrri tillögunum tveim. Sérfélögin tóku málinu vel, samþykktu það og fékk sjóðurinn þennan ákveðna 1% tekjustofn. Á aðalfundi 1967 var fyrsta stjórn kjörin og skipuðu hana Bragi Pálsson, Ólafur Guðmundsson og Guðmundur B. Jónsson.

Þegar innheimtuskrifstofa var sett á stofn á vegum Iðnaðarmannafélagsins síðla árs 1967 tók hún að sér innheimtu gjalda í styrktarsjóðinn og reikningshald hans. Reglugerð um starfsemi sjóðsins var samþykkt og staðfest á fundi stjórnar félagsins og fulltrúaráðs 7. nóv. 1967 og á almennum félagsfundi í sama mánuði. Á næsta ári var hrein eign sjóðsins 122 þús.

Sjóðurinn stækkaði heldur hægt og var ekki til stórræða á næstu árum þrátt fyrir fastan tekjustofn, og viðleitni til að efla hann, enda verðbólgan ágeng við sjóði á þeim árum. Hann veitti þó þegar á þessum árum nokkra hjálp sem kom sér vel. Framan af var hann sameignarsjóður og starfaði sem slíkur, en sú tilhögun þótti ekki koma að nægu gagni. Árið 1972 var því reglugerð hans breytt og hann gerður að séreignarsjóði, þar sem hver sjóðfélagi á þá fjárhæð sem hann greiðir í sjóðinn eða er greidd af vinnuveitanda vegna hans. Þegar hann veikist eða verður fyrir heilsufarslegum skakkaföllum fær hann greidda upphæðina eða hluta hennar eftir ákveðnum reglum. Við andlát er inneignin síðan greidd alveg út til eftirlifandi maka eða erfingja.


Mikið og margþætt menningarstarf

Varla verður annað sagt en Iðnaðarmannafélag Suðurnesja hafi verið trútt upphaflegum markmiðum sínum um eflingu fræðslu og menningar meðal iðnaðarmanna. Það sýnir hið mikla fræðslustarf í fyrirlestrum og námskeiðum, sem rakið hefur verið áður. En félagið hefur ekki látið sitja við menningarstarf innan þess hrings, heldur fært það mjög út og sinnt æ meira almennum menningarmálum af ýmsu tagi. Þetta færðist einkum í aukana eftir að félagið fékk eigið félagsheimili með stórbættri aðstöðu, og hefur einnig komið fram í ýmsum stuðningi við listir og almenn félagsmál.

Eitt skýrasta dæmið um þetta eru listsýningar þær sem félagið hefur veitt húsnæði í fundarsal sínum að Tjarnargötu 3 alla stund síðan hann var tekinn í notkun. Á þessu árabili hefur Iðnaðarmannasalurinn verið nær eina listsýningahúsnæðið í bænum.

Þegar hús félagsins var tekið í notkun og vígt 9. mars 1968 var opnuð í salnum sýning á málverkum átta iðnaðarmanna á Suðurnesjum. Eyþór Þórðarson, þáverandi formaður félagsins, lét m. a. svo um mælt í vígsluræðu sinni um sýninguna:

„Jafnframt opnun þessa húss er opnuð málverkasýning meðlima okkar. Tilgangurinn með þessari sýningu er tvenns konar. í fyrsta lagi vissum við, að við áttum innan félagsins góða efniviði til að byggja upp slíka sýningu. Allir þeir aðilar sem hér sýna eru þekktir iðnaðarmenn í bæjarfélagi sínu, en hafa ekki áður komið hér fram á sýningu sem myndlistarmenn, en þau verk sem þeir sýna hér eru árangur tómstundastarfa þeirra. Vegna beiðni hússtjórnar félagsins létu umræddir aðilar til leiðast að koma hingað með verk sín til þessarar sýningar". Sumir listamennirnir hafa launað félaginu fyrir húsnæðið með því að láta því málverk í té og hefur félagið þannig eignast allmörg listaverk.

Þessi sýning varð mikils vísir. Á þeim 15 árum sem síðan eru liðin hafa fjölmargir íslenskir listamenn, bæði Suðurnesjamenn og aðrir, sýnt þarna verk sín, ýmist málverk og höggmyndir eða þá listíðir af öðru tagi. Þetta hefur í senn verið stuðningur við listafólkið og framlag til þess að gefa Suðurnesjafólki færi á að njóta listar í ríkari mæli. Hér verða ekki taldir allir þeir sem sýnt hafa í Iðnaðarmannasalnum, en þeir eru vafalaust tveir eða þrír tugir.Þá hefur salurinn oft verið lánaður til fyrirlestrahalds og funda af mörgu tagi. Ýmis félög hafa fengið þar fundarstað fyrr og síðar, og minni samkvæmi verið haldin þar.

Raunar hafa ýmsir iðnaðarmenn og iðnfyrirtæki á Suðurnesjum sýnt listum og listamönnum áhuga og stuðning og greitt götu listar á vit almennings. Má nefna, að þegar Birgir Guðnason, málarameistari, tók í notkun nýtt og stórt húsnæði fyrir bílasprautun sína í Grófinni 7 í Keflavík 1969, efndi hann til listsýningar átta málara.


Félagsmerki og fánar

Iðnaðarmannafélag Suðurnesja var heldur seinlátt við að koma sér upp félagsmerki og félagsfána. Var oft haft á orði á fyrstu áratugum þess, að óhæft væri að svo öflugt og fastmótað félag ætti sér ekki slík félagstákn. Félagið var þó orðið rúmlega þrítugt þegar látið var til skarar skríða. Á stjórnarfundi í ágúst 1966 var samþykkt að efna til hugmyndasamkeppni um gerð merkis og fána félagsins meðal meðlima þess.

Samkeppninni lauk í desember sama ár. og bárust 15 tillögur. Stjórn félagsins fékk þá þrjá fyrrverandi formenn félagsins, sem ekki voru í því lengur vegna breyttra aðstæðna, til þess að skipa dómnefnd, þá Gunnar Þorsteinsson, Egil Þorfinnsson og Svavar Sigurfinnsson. Dómnefndin lauk störfum í okt. árið eftir og valdi hún tillögu, sem Áki Gränz var höfundur að. Verðlaun voru 5 þús. kr. en hann gaf þau í hússjóð félagsins. Var fáni og merki félagsins hvort tveggja vígt og tekið í notkun á árshátíð þess 3. nóv. 1967.

Iðnaðarmannafélagið hefur að sjálfsögðu safnað og komið fyrir í félagsheimili sínu ýmsum gögnum sögu og starfs í félaginu, svo sem myndum, bókum, listaverkum, munum ýmsum, skjölum og blaðaúrklippum um félagið og iðnaðarmál á svæðinu.


Afmæli og árshátíðir

Félagið hefur jafnan haldið árshátíðir og vandað vel til þeirra með ávörpum, ræðum og öðrum skemmtiatriðum. Þar hefur líka verið minnst ýmissa merkisatburða í sögu félagsins. Sú venja hefur myndast á síðari árum, að deildirnar innan félagsins hafa skipst á um að annast undirbúning árshátíða.

Stórafmæla á fimm og tíu ára fresti hefur félagið jafnan minnst með veglegri hætti og afmælishátíðum sem sérstaklega hefur verið til vandað og þangað boðið ýmsum gestum. Hefur þá verið minnst árangurs í starfi, og góðra og dugmikilla félags og forystumanna.

Fjórir menn hafa verið kjörnir heiðursfélagar í Iðnaðarmannafélagi Suðurnesja fyrir mikil og óeigingjörn störf og forystu í félaginu í langan tíma. Þeir eru: Guðmundur Skúlason, trésmíðameistari, Guðni Magnússon, málarameistari, Skúli H. Skúlason, trésmíðameistari og Þórarinn Ólafsson, trésmíðameistari. Þeir áttu allir sæti í fyrstu stjórn félagsins.

Aðild að landssamtökum

Þegar Iðnaðarmannafélagið var stofnað þótti vafi leika á því, hvort það gæti þá þegar fengið inngöngu í Landssamband iðnaðarmanna vegna þess að flestir félagsmenn voru það sem kallað var réttindalausir. En félagið vann svo ötullega að því fyrstu misseri og ár að afla félagsmönnum réttinda, að leiðin inn í landssamtökin varð greið þegar á öðru ári félagsins, sem var fyrsta heila starfsár þess. Á félagsfundi 2. júní 1935 var rætt um inngöngu og þá samþykkt að leita nánari upplýsinga um skilyrði til hennar, svo og skyldur og réttindi sem því fylgdu. Stjórn félagsins samþykkti síðan 15. júní 1935 að leggja til við félagsfund, að gengið yrði í Landssamband iðnaðarmanna og það var samþykkt þar 16. júní. Umsókn félagsins var þegar samþykkt í Landssambandinu.

Síðan hefur félagið tekið fullan og vaxandi þátt í starfsemi Landssambandsins og verið þar mjög virkur aðili, oft átt fulltrúa í starfsnefndum og flutt mál á vettvangi þess.

Á fyrstu þrjátíu árum félagsins átti það oftast aðeins 12 fulltrúa á Iðnþingi, formanninn og annan fulltrúa. En með mikilli fjölgun félagsmanna og skipulagsbreytingunni með tilkomu sérfélaganna, sem sjálf sendu fulltrúa á Iðnþing, fjölgaði fulltrúum af Suðurnesjum þar mjög og hafa þeir oftast verið 57 síðan eða jafnvel fleiri.

Fulltrúar félagsins hafa jafnan tekið virkan þátt í störfum Iðnþings og flutt þar mörg mál, átt sæti í starfsnefndum þess til undirbúnings málum og afgreiðslu þeirra, og má nefna undirbúning lífeyrismálanna sem dæmi, en Eyþór Þórðarson átti mikinn þátt í honum. Á aðalfundum greindu fulltrúar af Iðnþingi jafnan ýtarlega frá störfum og málum þess og umræður urðu oft um þau. Félagið hefur alloft átt fulltrúa í stjórn Landssambands iðanðarmanna, varastjórn og fastanefndum. Einnig hafa þeir stundum verið kjörnir forsetar Iðnþings, svo sem á 30 ára afmælisþinginu 1968, sem haldið var á Suðurnesjum í fyrsta skipti, en forseti þess var Eyþór Þórðarson. Á því þingi var Guðni Magnússon sæmdur gullmerki iðnaðarmanna.


Innheimtuskrifstofan

Félagið setti á stofn innheimtuskrifstofu sem tók til starfa seint á ári 1967 og hóf síðan bókhaldsþjónustu sem einkum var ætluð félagsmönnum og fyrirtækjum þeirra, en stofnunin var þó opin öðrum. Hún varð sérstök og sjálfstæð stofnun með þriggja manna stjórn, og var einn þeirra kjörinn af félaginu, en varð þó að vera aðili að innheimtuskrifstofunni, en allir félagar í Iðnaðarmannafélaginu gátu gerst aðilar. Þetta var í raun framhald af stofnun og starfi uppmælingaskrifstofunnar. Bókhaldsþjónustu var bætt við 1972 og keyptar bókhaldsvélar. í fyrstu stjórn Innheimtuskrifstofunnar voru Guðbjörn Guðmundsson, Höskuldur Þórðarson og Sigurður Jónsson. Starfsmaður skrifstofunnar og umsjónarmaður fyrstu árin var Björn Stefánsson.

Innheimtuskrifstofan hefur tekið að sér ýmis verkefni fyrir Iðnaðarmannafélagið og haft aðsetur í húsi félagsins. Hún hefur annast innheimtu og reikningshald fyrir sjóði og séð um tryggingaumboð, svo sem Iðntrygginga og fleiri tryggingafélaga sem Iðnaðarmannafélagið eða hún sjálf hafa.


Starfsfólk og iðnaðarmannatal

Iðnaðarmannafélagið hefur aldrei haft sérstakan framkvæmdastjóra eða fastráðið fólk í fullu starfi á skrifstofu félagsins, en þó alllengi einhverja í hlutastarfi og þá oftast fólk sem jafnframt vann í mælingastofunni og síðar innheimtuskrifstofunni. Björn Stefánsson var til að mynda í hlutastarfi hjá félaginu jafnframt forstöðu Innheimtuskrifstofunnar allmörg ár og einnig Signý Eggertsdóttir. Tekin var upp sú regla eftir 1970 að hafa skrifstofuna opna alla virka daga frá kl. 17.30-18.30. Síðustu árin hefur Guðni Magnússon verið í hlutastarfi hjá félaginu. Nokkrir fleiri munu hafa gegnt þar tímabundnum hlutastörfum, og einnig hafa stjórnarmenn og ýmsir aðrir félagsmenn unnið þar mikla sjálfboðavinnu fyrr og síðar. Björn Stefánsson hefur einnig verið húsvörður félagsins.

Á fundi stjórnar og fulltrúaráðs 10. okt. 1970 kom fram sú hugmynd að efna til iðnaðarmannatals á Suðurnesjum og taka saman ágrip af sögu Iðnaðarmannafélagsins ásamt ágripi af atvinnusögu Reykjanesskagans sunnan Hafnarfjarðar. Þetta var samþykkt með ályktun á félagsfundi 23. okt. 1970 og kosnir í undirbúningsnefnd Eyþór Þórðarson, Jón B. Kristinsson og Atli Hraunfjörð. Farið var fljótlega að vinna að málinu og á næstu tveimur árum var safnað mörgum æviskrám. Góð samvinna tókst um þetta við sérgreinafélög. Síðan hefur verið unnið að málinu, en það hefur af ýmsum ástæðum dregist og ekki komist í höfn fyrr en nú.


Annað innanfélagsstarf

Innanfélagsstarf af margvíslegu öðru tagi en nefnt hefur verið hér að framan hefur átt sér stað í Iðnaðarmannafélagi Suðurnesja. Félagið hefur oft haldið skemmtanir af ýmsu tilefni, bæði til fjáröflunar og styrktar ákveðnum málum eða upplyftingar félagsmönnum, svo sem sumarkomuskemmtanir. Árið 1972 var gerð tilraun með að hafa „opið hús" í félagsheimilinu ákveðin kvöld. Það tókst vel í fyrstu en varð minna úr því þegar frá leið. Nokkrum sinnum hefur félagið efnt til ferða, svo sem skoðunarferða að Búrfelli, í Straumsvík og á fleiri staði.
Félagið hefur stundum átt hlut að því að gera öldruðum dagamun og einstaka sinnum styrkt tómstundastarf unglinga í Keflavík. Líknarmálum og hjálparstarfsemi hefur það alloft lagt lið.

Þegar Vestmannaeyjagosið varð 23. jan. 1973 hélt stjórn félagsins tafarlaust fund til þess að ræða á hvern hátt það gæti orðið Vestmannaeyingum að liði. Félagsmenn voru beðnir að veita flóttafólkinu viðtöku á heimilum sínum eftir því sem unnt væri. Er skemmst af því að segja, að félagið veitti stórmikla aðstoð við Vestmannaeyinga á margvíslegan hátt og beitti formaður félagsins, Birgir Guðnason, sér mjög fyrir henni.

Fjölmargar starfsnefndir, bæði fastanefndir, sem sáu um ákveðna félagsþætti, og nefndir kjörnar til afmarkaðra verkefna til skemmri tíma, hafa starfað á vegum félagsins. Má nefna fræðslunefnd, skemmtinefndir og margar fleiri. Einnig hefur félagið átt fulltrúa í nokkrum sameiginlegum nefndum félaga og Keflavíkurbæjar, svo sem í 17. júnínefnd, sundlaugarráði, og iðnskólanefnd.

Í stjórn Iðnaðarmannafélags Suðurnesja 1983 eiga þessir menn sæti:
Birgir Guðnason, formaður Sigurður Erlendsson, varaformaður Sturlaugur Ólafsson, ritari Karl Hólm Gunnlaugsson, gjaldkeri Bjarni Guðmundsson, meðstjórnandi


Hvað er framundan?

Í upphafi þessarar samantektar um Iðnaðarmannafélag Suðurnesja er vitnað til orða Guðna Magnússonar, málara, eins stofnanda félagsins, um ástandið á vettvangi iðnaðarstéttanna á Suðurnesjum þegar félagið var stofnað. Því hæfir vel að víkja þeirri spurningu að Guðna að greinarlokum, hvernig honum finnist róðurinn hafa sóst þessa hartnær hálfu öld í starfi félagsins, og hvað honum sýnist um horfið í næstu framtíð:

  1. Ég var einn þeirra mörgu félaga sem ekki hafði nein iðnréttindi í málarastarfinu þegar félagið var stofnað, sagði Guðni, og átak félagsins til réttindaðflunar á fyrstu missirum varð mér sem öðrum lyftistöng. Ég var í hópi þeirra sem fóru í iðnprófið eftir áramótin þennan fyrsta vetur. Þetta mikilvæga frumkvæði félagsins í réttindamálunum er í orði og verki stefnuskrá, sem það hefur ætíð fylgt og verið hefur áttaviti í starfi þess alla tíð  að efla og standa vörð um réttindi, hagsmuni, menntun og starf stéttarinnar, jafnframt því að vinna að almennum framfara og menningarmálum á félagssvæðinu. Ég held að félagið hafi verið trútt hlutverki sínu og árangurinn af starfi þess orðið eftir því eins og jafnan þegar dyggilega er unnið. Eg held að það hafi verið byggðarlagi sínu þarft, og það hafi mörgu þokað til betri vegar. Einsýni hefur aldrei sett mark sitt á störf þess.
  2. Ég átti fyrst heima í Innri-Njarðvík eftir að ég stofnaði heimili 1930, starfaði margt á þeim árum, sótti sjó sunnanlands og norðan. Málarastörf stundaði ég að sumri og fram að hátíðum, en þá varð oft dauður tími eftir áramótin og ég varð að hverfa að öðru. En þetta breyttist eins og annað, ég hvarf nær alveg að málarastarfinu, og hef einnig, einkum á síðari árum, unnið sitthvað fyrir félagið.

  3. Hvað um framtíðina? spyrðu. Ætli fæst orð hafi ekki minnsta ábyrgð um hana. En ég trúi því að Iðnaðarmannafélag Suðurnesja muni dafna og starfa lengi enn og vinna margvíslegt gagn á þeim velli sem það hefur haslað sér. Ég er einnig viss um, að þörf verður fyrir starf þess um langa framtíð. Það er og verður mikilvægur samnefnari. Sérfélög iðnaðarstétta eru auðvitað eðlileg og nauðsynleg, en ef til vill er samnefnarinn enn mikilvægari þegar sú greining er komin á. Ef ég ætti að bera fram einhverja ósk Iðnaðarmannafélagi Suðurnesja til handa, væri hún helst sú, að félaginu mætti auðnast framvegis sem hingað til að gegna þessu samnefnarahlutverki með reisn og sóma jafnframt því sem það vinnur að almennum framfaramálum fólks og byggðar á Suðurnesjum.

 

Þakkarskuld við frumherjana

Í framhaldi af þessum orðum Guðna, þegar rætt er um samnefnarahlutverk Iðnaðarmannafélags Suðurnesja og framtíð þess, er vert að minna á orð annars forystumanns félagsins í lok þessa söguyfirlits, Eyþórs Þórðarsonar, um þetta efni. Hann lét svo um mælt á aðalfundi 1972 er leið að lokum sjö ára formannstímabils hans, sem var tími mikilla breytinga, grósku og góðra starfa í félaginu:

„Þeirri spurningu er oft varpað fram meðal iðnaðarmanna, hver verði framtíð Iðnaðarmannafélags Suðurnesja. Hafandi í huga að á undanförnum árum hafa verið stofnuð sjö önnur iðnfélög fyrir Keflavík og nágrenni, auk fjölda iðnfélaga í Reykjavík, sem hafa stækkað félagssvæði sitt fyrir allt landið, er slík spurning eðlileg.

Það er góðra gjalda vert að iðnaðarmenn vilji tryggja betur hagsmuni sína með því að fjölga félögum, en hætt er við að það verði ekki hagstætt, ef samtök iðnaðarmanna skiptast ört niður í smærri einingar. Það gæti leitt af sér að hvergi yrði fundarfært vegna fámennis.
Af þessari þróun leiðir, að það verður vissulega áfram tímabært og hagstætt að allir iðnaðarmenn séu í sama félagi með tilliti til sameiginlegra hagsmuna, en án tillits til iðngreina eða stöðu iðnaðarmanna, en þeir fjalli aftur á móti um sín sérmál í afmörkuðum félögum.

Við sem störfum í hinum mörgu iðnaðarfélögum hér syðra í dag, stöndum í mikilli þakkarskuld við frumherja Iðnaðarmannafélags Suðurnesja, sem stofnuðu hagsmunasamtök iðnaðarmanna hér í Keflavík fyrir tæpum fjörutíu árum. Þeir sem að því stóðu við erfið skilyrði og lítinn skilning höfðu metnað til að viðhalda félagi sínu yfir frumbýlingsárin. Okkar hlutverk er aftur á móti að viðhalda þessu félagi með reisn í framtíðinni.
Það er staðreynd, að framtíð okkar gamla Iðnaðarmannafélags Suðurnesja byggist á því, að þeir sem við stjórnvöl þess standa á hverjum tíma, hafi hugmyndaflug til að taka upp og koma í framkvæmd nýjum félagsháttum í staðinn fyrir hina fjölmörgu starfsþætti, sem önnur félög vilja taka að sér".

Þetta mælti Eyþór Þórðarson 1972, og sú leiðsögn á vafalítið enn við um næstu framtíð Iðnaðarmannafélags Suðurnesja.

Í júlí 1983,
Andrés Kristjánsson