header

Andrés Kristjánsson:

Iðnaðarmannafélag Suðurnesja

I. hluti --- II. hluti --- III. hluti

Iðnskóli Suðurnesja

Þar sem annað aðalmarkmið Iðnaðarmannafélagsins var frá öndverðu að efla menningu og menntun iðnaðarmanna á félagssvæðinu var eðlilegt að því væri hreyft snemma í félaginu að það beitti sér fyrir stofnun iðnskóla fyrir Suðurnesin í Keflavík. Á 7. fundi félagsins, 2. júní 1935, kom iðnskólamálið fyrst á dagskrá - „möguleikar fyrir stofnun iðnskóla" eins og segir í fundargerð, og hafði Guðni Magnússon framsögu um það. Málið varð þó engan veginn útrætt á þeim fundi, en kosin var þriggja manna nefnd til þess að kanna það og búa það undir framhaldsumræðu. í nefndinni voru Guðni Magnússon, Valdimar Björnsson og Þorsteinn Arnason.

Iðnskólamálið var næst á dagskrá félagsfundar 13. okt. 1935. Guðni Magnússon, formaður nefndarinnar, skýrði frá því að samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hefði aflað sér virtist unnt að starfrækja iðnskóla í Keflavík, og væru að minnsta kosti 7-8 nemendur vísir þá þegar. Þá hafði fengist vilyrði fyrir húsnæði í barnaskóla Keflavíkur. Umræður urðu allmiklar um málið frá ýmsum hliðum og ákveðið var að stefna að skólahaldi. Var síðan kjörin skólanefnd. í henni voru Guðni Magnússon, Skúli H. Skúlason og Bergsteinn Sigurðsson.

Skólanefndin vatt bráðan bug að málinu og var skólahald hafið skömmu eftir veturnætur. Þetta var þó aðeins vísir, því að þennan vetur var einungis 1. bekkur og nemendur fáir. Kennt var í gamla barnaskólanum við Skólaveg. Kennarar voru Ragnar Guðleifsson og Skúli H. Skúlason þennan fyrsta vetur.

Á félagsfundi 1. des. 1935 var nokkuð rætt um kostnað félagsins af skólahaldinu og ákveðið að skólagjald hvers nemanda yrði 60 kr. og átti það að nægja þennan fyrsta vetur, en búist við að kostnaður ykist á næstu árum. Næsta vetur, 1936-37, var 1. og 2. bekkur í skólanum og nemendur um helmingi fleiri en árið áður. Þá var kennt í tveimur skólastofum í nýbyggðu húsi VSFK, svonefndu Félagshúsi, og voru kennarar hinir sömu. Þar starfaði einnig kvöldskóli fyrir unglinga.

Hlé á skólahaldi

Því miður reyndist ekki unnt að framlengja þetta skólahald og efla það í samfelldan iðnskóla og féll það niður eftir tvo vetur, og kom einkum það tvennt til, að engir nýir iðnnemar bættust við á þessum árum, og ekki voru fyrir hendi kennslukraftar handa efri bekkjum iðnskóla, þar sem til varð að koma sérkennsla í ýmsum iðngreinum.

Iðnskólamálinu var þó haldið vakandi í Iðnaðarmannafélaginu, og á aðalfundi 1937 var endurkjörin skólanefnd, en síðan var ekki kjörin skólanefnd aftur fyrr en 1943 um þær mundir sem skólinn tók til starfa að nýju. Á fundi í félaginu 10. nóv. skýrir formaður frá því að kennsla sé hafin en eftir sé að taka ákvörðun um það, hvort félagið ætli að sjá um rekstur skólans, og var samþykkt að félagið skyldi gera það.


Óslitið skólastarf síðan

Eftir þetta komst fastara snið á skólann, enda hefur hann starfað óslitið síðan. Hermann Eiríksson, skólastjóri barnaskólans, var þá ráðinn forstöðumaður Iðnskólans og kenndi jafnframt íslensku, reikning, fríhendisteikningu og dönsku. Aðrir kennarar voru Eyjólfur Þórarinsson, sem kenndi flatar og rúmteikningu, Skúli H. Skúlason, sem kenndi iðnteikningu húsasmiða, Skafti Friðfinnsson, sem kenndi eðlis og efnafræði, Kristinn Reyr, sem kenndi bókfærslu, Egill Þorfinnsson, sem kenndi iðnteikningu skipasmiða, og Sveinbjörn Gíslason, sem kenndi iðnteikningu múrara. Fyrstu nemendurnir útskrifuðust vorið 1946 og voru þeir tólf að tölu.

Á aðalfundi félagsins 1945 var flutt skýrsla um starfsemi skólans, og síðan var það jafnan gert a. m. k. meðan hann var alveg á vegum Félagsins. Þann vetur voru 15 nemendur í skólanum, 12 reglulegir og 3 óreglulegir. Var þá rætt um að fjölga yrði nemendum og hvetja ungt fólk til iðnnáms, svo að skólinn legðist ekki niður aftur. f skólanefnd voru þá kjörnir Guðni Magnússon, Egill Þorfinnsson og Þorsteinn Árnason.
Það kom í ljós að loknu þessu skólaári, að allmikill halli varð á rekstri skólans, og á félagsfundi 9. maí 1945 var samþykkt eftirfarandi tillaga frá stjórninni:

„Fundurinn samþykkir að heimila stjórn félagsins að taka lán í Sparisjóði Keflavíkur til þess að greiða ógreiddan rekstrarkostnað Iðnskólans veturinn 194445, og gengur fyrirhugaður styrkur frá ríkinu til greiðslu á láni þessu".

Félagið hljóp oftar þannig undir bagga með skólanum á fyrstu árum hans, með greiðslum, lánum úr eigin sjóði eða lántökum vegna hans, enda var skólinn um þessar mundir rekinn á vegum Iðnaðarmannafélagsins og í fjárhagslegri ábyrgð þess með styrk frá ríki og Keflavíkurbæ, sem lagði honum til húsnæði.


Forsjá Iðnaðarmannafélagsins lýkur

Þannig var þessu háttað til 1955, er sett voru lög um að iðnskólar skyldu felldir inn í hið almenna fræðslukerfi ríkis og sveitarfélaga, og síðan eru þeir reknir af þeim aðilum. Lauk þar með forsjá Iðnaðarmannafélagsins á Iðnskóla Suðurnesja. Guðni Magnússon hefur lengst átt sæti í skólanefndinni á vegum félagsins.

Kennslan fór áfram að mestu fram í barnaskólahúsinu, en árið 1969 gekk í gildi ný og töluvert aukin námsskrá í iðnskólum. Þá var orðið þröngt um Iðnskóla Suðurnesja í barnaskólahúsinu og var tekin á leigu ein kennslustofa í Tjarnarlundi.

Í frumvarpi til laga um iðnfræðslu, sem lagt var fram á Alþingi 1966, hafði verið gert ráð fyrir, að iðnskólum á landinu öllu yrði fækkað í átta. Þetta þótti nauðsynlegt til þess að þeir yrðu nægilega stórir til þess að viðhafa mætti viðunandi fjölbreytni í starfi þeirra. Þá var gert ráð fyrir að leggja iðnskólann í Keflavík niður, og iðnnemum af Suðurnesjum ætlað að sækja skóla til Hafnarfjarðar eða Reykjavíkur. Þetta sætti mikilli andspyrnu á Suðurnesjum og var hafin barátta fyrir því að halda skólanum. Sú sókn bar þann árangur, að frumvarpinu var breytt á þann veg áður en það varð að lögum, að skólinn í Keflavík fengi að starfa áfram. Iðnaðarmannafélagið lét þetta mál mjög til sín taka og átti mikinn hlut að því að það vannst.

Upp úr þessu var farið að vinna að því, að nýtt iðnskólahús, miðað við þarfir skólans, yrði reist í Keflavík, því að hann var á hrakhólum í þeim efnum og aðstaða öll stóð honum fyrir þrifum. Iðnaðarmannafélagið beitti sér einnig lengi og ötullega í því máli, og þar kom að iðnskólahúsið reis og lauk byggingu þess 197273.

Hermann Eiríksson var skólastjóri Iðnskóla Suðurnesja til 1970, en þá tók Ingólfur Halldórsson við skólastjórninni. Hann hafði verið kennari við skólann alllengi. Þegar Fjölbrautaskóli Suðurnesja var stofnaður árið 1976 varð Iðnskólinn einn helsti þáttur í þeirri stofnun, enda var hið nýja húsnæði hans þá lagt undir Fjölbrautaskólann og iðnaðarnámið eftir það ein af námsbrautum hans.

Hermann Eiríksson vann mikið og gott starf fyrir iðnaðarmenn á Suðurnesjum með því að veita skólanum forstöðu og forsjá á frumbýlingsárunum og síðan lengst af meðan hann var sérstök skólastofnun. Það starf var oft unnið við erfið skilyrði og fátækt, en Hermann leysti þann vanda jafnan með þrautseigju og úrræðasemi og hlaut fyrir virðingu nemenda og samkennara við skólann jafnt sem iðnaðarmanna. Hann lést 6. maí 1974.

Ingólfur Halldórsson hefur einnig leyst af hendi gott starf fyrir skólann fyrr og síðar. Þegar skólinn sameinaðist Fjölbrautaskóla Suðurnesja varð hann aðstoðarskólameistari þar og hefur síðan haft mestan veg og vanda af stjórn og starfi iðnbrautarinnar.


Námsverðlaun félagsins

Þótt Iðnaðarmannafélag Suðurnesja hætti að annast skólann sleppti það ekki alveg af honum hendinni, og reyndi með ýmsum hætti að efla iðnnámið og hvetja ungt fólk til iðnnáms. Félagið hefur til að mynda haft þann sið að senda fulltrúa sinn til skólauppsagnar og veita þeim nemendum sem bestum námsárangri ná hvern vetur góð verðlaun. Hafa þá oft fleiri en einn fengið verðlaun Iðnaðarmannafélagsins. Verðlaunin hafa oftast verið góðar, áritaðar bækur. Fulltrúar félagsins við skólaslitin, sem oftast hafa verið formenn félagsins, hafa jafnan flutt ávörp, rætt málefni skólans og flutt honum, nemendum og kennurum árnaðaróskir.

Á fyrstu árum Iðnskólans var skortur á iðnlærðum mönnum á Suðurnesjum og atvinna þeirra mikil, og þá var svo algengt að til vandræða þótti horfa, að óiðnlærðir menn stæðu fyrir iðnverkum. Iðnaðarmannafélagið gerði þá ýmsar ráðstafanir til þess að hvetja og örva ungt fólk til iðnnáms. Síðar breyttist þetta og kom jafnvel þar að naumt varð um atvinnu hjá iðnaðarmönnum, einkum á árunum eftir 1955, og var þá fjölgun iðnaðarmanna á svæðinu talin um of, svo að rætt var um það á fundum félagsins að takmarka þyrfti iðnnemafjölda í sumum iðngreinum. Ekki mun þó hafa komið til beinna aðgerða félagsins í þeim efnum.Í nóv. 1980 var rætt um meistaraskóla í byggingaiðnaði. Kom þar fram að slík námsbraut hefði verið sett á stofn í Fjölbrautaskólanum að beiðni Meistarafélags byggingamanna. Þetta var kvöldskóli, þrjár annir.

Ýmis iðnfræðsla á vegum félagsins

Iðnaðarmannafélag Suðurnesja hefur ekki látið við það sitja í iðnfræðslumálum að standa að stofnun, rekstri og eflingu Iðnskóla Suðurnesja, heldur unnið ötullega að ýmsum iðnfræðslumálum innan félags og utan með námskeiðum, fundahöldum, erindum og umræðum. Á fyrstu tveimur áratugum félagsins beindist meginstarfið þó mjög að kaupgjalds og réttindamálum af brýnni nauðsyn, svo að minna varð um framlag til iðnfræðslumála utan iðnskólans, en þegar kjarasamningamálin tóku æ meira að falla í aðra farvegi og réttindamál að skipast til betri vegar efldist fræðsluþátturinn í starfi félagsins, og þó mest eftir skipulagsbreytingarnar 1965.

Framsögu og erindaflutning í þessum málum hafa bæði annast ýmsir félagsmenn og kunnáttumenn í iðnaði utan félags sérstaklega fengnir til þess. Félagið hefur einnig gengist fyrir almennum fundum bæði um algeng atvinnumál og iðnþróunarmál, svo og önnur sérstök framfaramál, jafnvel hefur verið efnt til námskeiða eða kynninga um afmörkuð efni.
Upphaf þess að farið var að halda fræðslu og framsöguerindi á fundum félagsins um ýmis mál og síðan efna til umræðna um þau má rekja til fundar í félaginu 28. sept. 1950. Þá varð tilrætt um það, að fundarsókn væri ekki nógu góð í félaginu og stæði það því fyrir þrifum. Reyndu menn þá að svara þeim spurningum, hvernig á dræmri fundarsókn stæði og hvað væri helst til úrbóta í þeim efnum. Meðal þess sem fram kom var tillaga um að félagar skiptust á um framsögu um ýmis efni á fundum og síðan yrðu umræður um þau. Væri þetta reynandi til þess að örva fundarsókn og félagsáhuga.

Síðan var samþykkt tillaga um „að á komandi vetri skyldi halda minnst einn fund í mánuði," og á dagskrá hvers fundar vera framsöguræða um ákveðið efni. Þá var stjórninni falið að tilnefna þrjá menn í lok hvers fundar til þess að sjá um framsögu á næsta fundi á eftir, og væri mönnum í sjálfsvald sett hvert framsöguefnið yrði. Fundinum þótti vel við eiga, að stjórn félagsins riði á vaðið og sæi um fyrstu framsöguna.

Fyrsti fundur með slíkri framsögu í félaginu var haldinn 10. okt. 1950. Þar flutti Egill Þorfinnsson, þáverandi formaður félagsins, erindi um iðnað, iðnnám, iðnbréf, meistarabréf, námstíma og gervimennsku í iðnaði. 1 erindinu og miklum umræðum á eftir varð einkum tíðrætt um gervimennskuna og hvernig með það vandamál skyldi fara. í lok umræðnanna var samþykkt eftirfarandi ályktun frá Bjarna Einarssyni:

„Fundur haldinn í Iðnaðarmannafélagi Keflavíkur 10. okt. 1950, þar sem rætt var um iðnnám og iðnréttindi, skorar á Landssamband iðnaðarmanna að beita sér fyrir því, að lokað verði þeim möguleika að menn geti fengið meistararéttindi útgefin af stjórnarráði án undangengis iðnnáms lögum samkvæmt. Ennfremur skorar fundurinn á Landssamband iðnaðarmanna að beita sér fyrir því, að allar sýslur landsins lögfesti hjá sér byggingarsamþykkt og ráði til sín byggingafulltrúa, er sjái um að byggingarsamþykktin sé haldin".

Hér er þetta fyrsta skref að erindaflutningi og umræðum um ýmis mál, einkum iðnaðarmál í félaginu, rakið nokkuð vegna þess að það varð vísir að miklu og mikilvægu starfi félagsins á þessum vettvangi. Erindin og umræðurnar leiddu oft til samþykkta um ýmis framfaramál iðnaðar og iðnaðarmanna eins og í þetta fyrsta skipti. Þannig ófst saman í þessum þætti iðnfræðsla, málefnabarátta og umfjöllun atvinnumála.

Hér á eftir verða rakin í fáum dráttum helstu atriðin af þessum starfsvangi félagsins síðustu þrjátíu árin.

Næsta erindi flutti Bjarni Einarsson á fundi 14. nóv. 1950 um skipulag iðnaðarins og urðu um það allmiklar umræður.

Ekki varð unnt að halda þeirri áætlun að hafa framsöguerindi á hverjum fundi, því að önnur fundarefni gerðust of ráðrík og á aðalfundum komst þetta að sjálfsögðu ekki að. En á fundi í mars 1951 flutti Guðni Magnússon, þáverandi formaður félagsins, framsöguerindi um skipulag bæja og stjórn byggingamála, og mánuði síðar talaði Guðjón Hjörleifsson um byggingarefni og fleiri þætti byggingastarfs. Eftir miklar umræður sem snerust mjög um steinsteypuefni var samþykkt ályktun um að skora á bæjarstjórn Keflavíkur að beita sér fyrir rannsóknum og leit að hæfu steinsteypuefni í nágrenni bæjarins, og bauð félagið fram aðstoð sína við verkefnið.

Á maí-fundi félagsins sama ár. flutti Oddbergur Eiríksson framsöguerindi sem hann nefndi „Staða iðnaðarins í íslensku þjóðlífi" og spunnust af því langar umræður.

Sést af þessu yfirliti, að myndarlega var af stað farið með þennan þátt í starfi félagsins. Leið nú fram til 14. mars 1952, en þá flutti Friðrik Valdimarsson erindi um „hráefnisverslun iðnaðarins" þar sem hann sýndi fram á óhagstæð efnisinnkaup íslensks iðnaðar, sem færu að miklu leyti fram í smásöluverslunum. Hann hvatti til þess að iðnaðurinn tæki þessi hráefniskaup meira í sínar hendur.

Um þetta mikilvæga hagsmunamál iðnaðarins urðu miklar umræður á fundinum og samþykkt tillaga framsögumanns um að félagið „athugi möguleika fyrir samtökum meðal iðnaðarmanna og iðnrekenda innan félagsins og utan um að koma á bættu ástandi í hráefnisverslun iðnaðarins".


Fræðslunefnd

Eftir þetta verður alllangt hlé á þessum almenna fræðslu og erindaflutningi á fundum félagsins, enda fækkaði fundum allmikið á næstu árum og við tók tímabil þar sem meira los var á starfi þess en bæði fyrr og síðar. Þó er ætíð nokkuð um umræður um iðnað og jafnvel stutt námskeið eða kvikmyndasýningar til fræðslu. En árið 1965 eflist fræðslustarfsemin að nýju eftir skipulagsbreytingarnar, og verðlir um leið fjölbreyttari og með öðru sniði. Það ár voru til að mynda keyptir 40 reiknistokkar og kennsla hafin í meðferð þeirra á vegum félagsins. Kennari var Jón Richardsson.

Á fundi í félaginu 18. okt. 1965 bar formaður félagsins, Þorbergur Friðriksson, fram tillögu um að kosin yrði fræðslunefnd í félaginu. Sú tillaga var samþykkt og kjörnir í nefndina Sigurður Erlendsson, formaður, Óskar Jónsson og Hreinn Óskarsson.

Á þessum sama fundi flutti Sigurlinni Sigurlinnason erindi um múrhúðunarefni og sýnd var fræðslukvikmynd um það. Eftir að deildaskiptingin komst á fóru sérfélögin að sinna fræðslumálum innan sinna greina. Árið 1965 hélt Trésmiðafélagið til að mynda námskeið í meðferð og notkun hallamælingatækja.

Á fundi 2. maí 1966 flutti Guðmundur Björgvin Jónsson framsöguerindi um iðnfræðslumálin, sem þá voru mjög á dagskrá vegna nýrra iðnfræðslulaga sem Alþingi var að fjalla um.

Fræðslunefnd félagsins gekkst fyrir tveimur námskeiðum á árinu 1966. í aprílmánuði var námskeið í hjálp í viðlögum, kennari Helgi S. Jónsson, og síðar á árinu námskeið í fundarsköpum og málflutningi, og var kennari Karl Steinar Guðnason. Fræðslunefnd auglýsti fleiri námskeið á þessu ári, en næg þátttaka fékkst ekki.

1. nóv. 1967 flutti Sigurður Auðunsson fyrirlestur um vinnuhagræðingu og lýsti ýmsum leiðum hennar, og fóru fram miklar umræður um þau mál á fundinum.

Á árinu 1968 var starfsemi fræðslunefndar félagsins fjölþætt. 2. nóv. flutti Þórhallur Stígsson, löggiltur endurskoðandi, erindi um bókhaldslögin og skattamál iðnaðarmanna og svaraði fyrirspurnum fundarmanna á eftir.

9. nóv. gekkst nefndin fyrir skoðunarferð félagsmanna í Álverið í Straumsvík, og 16. des. var kvikmyndasýning um verkstjórn á vegum nefndarinnar. Myndirnar lét Iðnaðarmálastofnun Íslands í té.

Á fundi félagsins 16. des. 1968 flutti Þorbergur Friðriksson framsöguerindi um tryggingafélag iðnaðarmanna og rakti aðdraganda að stofnun Iðntrygginga. Í fræðslunefnd þetta ár voru Sigurður Erlendsson, Ingólfur Bárðarson og Garðar Pétursson.

Á árinu 1969 var fremur lítið um fræðslustarfsemi á vegum félagsins, en 1970 jókst hún nokkuð aftur. Þá voru til að mynda sýndar á fundi tvær fræðslukvikmyndir um slysahættu á vinnustöðum og öryggisráðstafanir þar.

Á fundi 5. des. 1970 flutti Sigurður Erlendsson framsöguerindi um þróun mála og framtíðarhorfur um byggingu og rekstur iðnskóla. Þar rakti hann lagasetningu um þau mál og fjárframlög ríkissjóðs. Aðallega ræddi hann þó um Iðnskóla Suðurnesja og hugsanlegar nýgreinar, svo sem fiskiðnaðardeild. í framhaldi af erindinu og umræðum á eftir var samþykkt ályktun um að kalla saman samstarfsnefnd iðnfélaganna og sveitarfélaganna á Suðurnesjum til þess að fjalla um þessi mál.

Á árinu 1971 voru mörg fræðsluerindi flutt og á eftir umræður um efni þeirra. Á fundi í janúar hafði Atli Hraunfjörð framsögu um gæðamatsmál iðnaðarins, og í umræðum um málið kom fram að slíkt gæðamat gæti orðið iðnaðinum gott aðhald og kaupendum iðnverka trygging. Var framsögumanni falið að halda áfram könnun þessara mála.
Á þessu ári var tekin upp sú skipan í félaginu, að deildir þess, sérfélögin, skiptust á um að ákveða umræðuefni á fundum og annast framsögu. Á fundi 6. febrúar sáu trésmiðir um fræðsluefnið. Höfðu þeir fengið á fundinn Óskar Guðmundsson, hagræðingarráðunaut, sem fræddi fundarmenn um hagræðingu í vinnu og rekstri í máli og myndum og greindi frá niðurstöðum ýmissa rannsókna.

Á þessu ári var það meginregla að halda fræðslufund í félaginu fyrsta laugardag hvers mánaðar. Pípulagningamenn undirbjuggu fræðslufund 6. mars 1971 og fengu Kristján Sæmundsson, jarðfræðing, til þess að skýra frá niðurstöðum jarðhitarannsókna á Reykjanesi og horfum í hitaveitumálum Suðurnesja. Á þessum fundi voru tveir verkfræðingar og þrír forystumenn í bæjarmálum Keflavíkur einnig gestir og lögðu nokkuð til mála í umræðum. Loks var samþykkt ályktun í hitaveitumálunum.

Síðar á þessu ári var haldinn fræðslufundur um byggingalist og voru frummælendur Haukur Viktorsson og Ulrik Stark, arkitektar, og á öðrum fundi 9. des. ræddu þeir dr. Ásbjörn Einarsson og Gunnlaugur Elíasson, efnafræðingur, um tæringu í vatns og miðstöðvarlögnum, og sýndu efnisdæmi og skuggamyndir til skýringar. Eftir umræður var samþykkt ósk til Rannsóknastofnunar iðnaðarins um athugun á endingarmismun á vatnslagnaefni við íslenskar aðstæður. Fundarmenn fengu prentaða upplýsingabæklinga.

Fræðslustarf ársins 1972 hófst með fundi um lánamál iðnaðarins og fjárhagsgetu fjárfestingarsjóða iðnaðarins. Framsögumaður var Bragi Hannesson, bankastjóri. Hann ræddi m. a. um nýstofnaðan Iðnþróunarsjóð sem nýtur tilstyrks Norðurlandaráðs í því skyni að auðvelda Íslendingum þátttöku í EFTA.

Járniðnaðardeild félagsins annaðist um fund 10. febr. og fékk til framsögu Guðmund B. Jónsson. Hann ræddi um verkstjóra og verkstjórn, einkum hlutverk verkstjóra sem tengiliðar atvinnurekanda og starfsmanna, og forsendur góðrar verkstjórnar.

Á fundi 16. mars 1972 var fræðsluefnið sprungur í steinsteypu og framsögumenn um það Sigurjón Sveinsson, arkitekt, Bragi Þorsteinsson, verkfræðingur, og Óttar Halldórsson, verkfræðingur.Í febrúar var farin kynnisferð í Rannsóknastofnun iðnaðarins á Keldnaholti og stofnunin skoðuð við leiðsögn Péturs Sigurjónssonar, forstjóra.

Á árinu 1972 hafði formaður félagsins, Eyþór Þórðarson, ýtarlega framsögu um félagsstarfið á einum fundi, og fóru fram miklar umræður um það.Þá var á öðrum fundi, 12. okt., flutt erindi um nýjungar í byggingariðnaði, og var Guðmundur Einarsson, formaður Verkfræðingafélags Íslands, fyrirlesari.

Í október var fundarefnið iðnfræðslulöggjöfin og námsskrá iðnskólanna. Óskar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Iðnfræðsluráðs, flutti erindi um það. Ingólfur Halldórsson, skólastjóri Iðnskólans, tók þátt í umræðum á eftir og kom fram í máli hans, að þá væri í landinu 71 löggild iðngrein.
Á nóvember-fundi flutti Bjarni Þórðarson, formaður Landssambands lífeyrissjóða, erindi um séreignarlífeyrissjóði, sem þá voru 1012 á landinu en alls voru lífeyrissjóðirnir þá um hundrað. í framhaldi af erindinu rakti Eyþór Þórðarson afskipti Iðnaðarmannafélags Suðurnesja af lífeyrissjóðsmálum.

Á desember-fundi flutti Magnús Gústafsson, framkvæmdastjóri tæknideildar Vinnuveitendasambands Íslands, fræðsluefni er hann nefndi: Hverjar eru veikar og sterkar hliðar fyrirtækis? Hann reyndi m. a. að svara spurningunni: Hvernig get ég fengið heildarmynd af rekstri fyrirtækis?

Fyrsti fræðslufundur ársins 1973 var 11. jan. þar sem Gunnar Brynjólfsson, rafsuðusérfræðingur Rannsóknastofnunar iðnaðarins, flutti erindi um „rafsuðu í nútíma iðnaði". Einkum ræddi hann um rafsuðutæki og beitingu þeirra.

Á febrúar-fundi 1973 var fræðsluerindið um „samskipti iðnaðarmanna og húsbyggjenda", flutt af Gunnari Björnssyni, formanni Meistarasambands byggingamanna. í umræðum á eftir var vikið að ýmsum þáttum þessara mála, m. a. hóptryggingum og réttindamálum meistara.

Á mars-fundi flutti Guðjón Petersen, framkvæmdastj. Almannavarna ríkisins, erindi um almannavarnir og gerði grein fyrir kerfi þeirra bæði í heild og á ýmsum hættusvæðum landsins, svo sem aðvörunarkerfi fyrir Kötlugos. í umræðum var mjög komið að almannavörnum á Suðurnesjum.

Á fundinum í apríl var fræðsluefnið skipulag Keflavíkur, Njarðvíkur og Keflavíkurflugvallar. Sigurður Thoroddsen, arkitekt, flutti erindi um það efni.

Fræðslustarfið 1974 hófst með erindi Kára Þórðarsonar, rafveitustjóra, um kaup á stórum jarðbor vegna undirbúnings að hitaveitu á Reykjanesi. Jóhann Einvarðsson, bæjarstjóri í Keflavík, var einnig á fundinum til fræðslu um þessi málefni, svo og Jón Ásgeirsson sveitarstjóri í Njarðvík.

Á maí-fundi flutti Sigurður Kristinsson, forseti Landssambands iðnaðarmanna, erindi um starfsemi sambandsins og nýsamþykktar skipulagsbreytingar á því.

Á árinu 1975 var mjög lítið um fræðslustarfsemi, enda lítið um almenn fundarhöld hjá félaginu, en á fundi 7. febr. 1976 voru iðnfræðslumál á dagskrá. Sigurður Erlendsson ræddi þar um verknám og ráðstefnu sem haldin var um það á vegum Stjórnunarfélags Íslands.

Óskar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Iðnfræðsluráðs, skýrði og ræddi á fundinum stöðu og framtíðaráætlanir iðnfræðslunnar. Ingólfur Halldórsson, skólastjóri, svaraði spurningum um það, hvernig iðnfræðslan félli inn í fjölbrautaskólakerfið. Að loknum umræðum samþykkti fundurinn ályktun um uppbyggingu verknámsaðstöðu.

Á mars-fundi 1976 flutti Kristján Friðriksson, iðnrekandi, erindi um efnahagsmál og þróun stóriðnaðar á Íslandi.

Á maí-fundi var dagskrárefnið „peningastofnanir og lánsfjármögnun iðnaðarins" og var Bragi Hannesson, bankastjóri, framsögumaður, en auk þess var Þorleifur Jónsson, frkvstj. Landssambands iðnaðarmanna, gestur á fundinum vegna þessa máls.

Í september var rædd staða verkmenntunar í verðandi skólakerfi og var Erlingur Jónsson frummælandi. Að loknum umræðum um þetta mál lýsti fundurinn yfir ánægju með stofnun Fjölbrautaskóla Suðurnesja í von um að efling verkmenntunar mundi fylgja í kjölfarið og tók undir óskir mynd og handmenntakennara um að gera mynd og handmennt að kjarnanámsgreinum í framhaldsskólum.

Fræðslunefnd á þessum árum var skipuð Ásgeiri Skúlasyni, Ólafi Jónassyni og Jóni W. Magnússyni. Á árinu 1978 var minna um fræðslufundi, en í júní var þó haldinn fræðslufundur með aðilum Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins. Þar kynnti Jón Sigurjónsson, verkfræðingur, starfsemi stofnunarinnar með fyrirlestri og Ríkharður Kristjánsson, verkfræðingur, ræddi um steinsteypu og steypugalla, og kom fram í máli hans að steypugallar hefðu einkum fundist í húsum sem byggð voru eftir 1960 og í ljós hefði komið, að steypugallar hefðu fundist í 70-80% steyptra mannvirkja.

Á aprílfundi þetta ár flutti Hlöðver Ólafsson, rekstrarfræðingur Landssambands iðnaðarmanna, erindi um starfsemi sambandsins sem hafði aukist til muna með tilkomu iðnaðarmálagjaldsins. Á sama fundi ræddi Bragi Hannesson, bankastjóri, um lánsfjárvanda fyrirtækja og hlutverk banka og fjárfestingarsjóða iðnaðarins.

Um sömu mundir var haldið stutt bókhaldsnámskeið sem Hlöðver Ólafsson stýrði. Námskeiðið var miðað við þarfir lítilla iðnfyrirtækja.
Í nóv. 1979 var haldinn sameiginlegur fræðslufundur Iðnaðarmannafélagsins, Iðnsveinafélags Suðurnesja, Iðnnemafélagsins og Meistarafélagsins um breytt fyrirkomulag iðnnámsins, og voru framsögugestir fundarins Sigurður Kristinssón frá Iðnfræðsluráði og Jónas Sigurðsson frá Iðnnemasambandi Íslands. Sigurður Erlendsson kennari við Fjölbrautaskólann kynnti fyrirkomulag iðnnáms þar.

Árið 1980 kom Gísli Ólafsson í fræðslunefndina. Á því ári var fræðslustarfsemi lítil, en í mars 1981 var haldinn fræðslufundur með málurum þar sem Atli Guðmundsson, efnaverkfræðingur, gerði grein fyrir málningarefnum og nýjungum í framleiðslu þeirra.

Í okt. 1981 var fundur um iðnþróunarmál, og var Ingólfur Sverrisson, verkefnastjóri SMS, framsögumaður. í framhaldi af þessum fundi var rætt um iðnþróunarmál Suðurnesja sérstaklega á fundi um haustið. Þar hafði Þórir Aðalsteinsson, iðnþróunarfulltrúi, framsögu um iðnþróun á Suðurnesjum og kom þar fram yfirlit um skiptingu vinnuafls milli atvinnugreina á þessu svæði.

Á árinu 1982 var haldinn fundur um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum iðnaðar með fulltrúa frá Fræðslustofnun iðnaðarins, en sú stofnun veitir félögum og fyrirtækjum aðstoð við fræðslu og námskeiðahald.

Eins og sést á þessu yfirliti hefur geysimikið og almennt iðnfræðslustarf verið unnið í Iðnaðarmannafélagi Suðurnesja og vafalaust haft mikla þýðingu til eflingar iðnaði á Suðurnesjum og styrkt iðnaðarmenn í starfi sínu á margan hátt og bætt verk þeirra. Þetta fræðslustarf hefur verið öflugast á tveimur tímabilum, það er fyrst eftir að það hófst, 1950-52, og síðan eftir skipulagsbreytinguna, en þá var það hafið af miklum krafti 1965 og hefur staðið alla stund síðan með ofurlitlum áramun. Má segja að fræðslustarfið hafi verið viðamesta fundaverkefnið í félaginu síðustu 15-20 árin og borið mikinn árangur.

Atvinnumálin

Eins og sjá má af yfirlitinu um fræðslustarfið hér að framan hefur félagið ætíð fylgst náið með atvinnumálum á svæði sínu, og oft fjallað um almenn atvinnumálefni þess, auk iðngreinanna, í umræðum, fræðslustarfi og samþykktum. í lögum félagsins hafa ætíð verið ákvæði um að það skuli „styðja gagnleg iðnaðarfyrirtæki", og að því markmiði hefur félagið unnið með ýmsum hætti, en einnig stutt hvers konar framfarir í atvinnumálum. Skipulagsmál og eftirlit með mannvirkjagerð og iðnaðarstörfum hafa einnig verið ofarlega á baugi og oft rædd. Má nefna að félagið hefur stundum fjallað um úrræði til þess að bæta vinnuafköst og stundvísi.

Á öðrum fundi félagsins, 2. des. 1934, var því hreyft, að félagið beitti sér fyrir kosningu bygginganefndar í Keflavík, sem þá var engin. Skúli Skúlason, húsasmiður, hafði þó verið ráðinn til þess að hafa eftirlit með byggingum í Keflavík af hálfu hreppsfélagsins árið 1927, og byggingarsamþykkt Keflavíkur var til frá 1932, en þurfti örra breytinga við í hraðvaxandi byggðarlagi.

Það varð því eitt af fyrstu verkum stjórnar Iðnaðarmannafélagsins að mælast til þess við hreppsnefnd að kjörin yrði bygginganefnd. Hreppsnefnd brást vel við, og nefndin tók til starfa í ársbyrjun 1935. Þar með var komið á því skipulagi byggingaeftirlits og stjórnar sem slík nefnd á að annast. Skúli Skúlason var fyrsti byggingafulltrúinn, en sonur hans Skúli H. Skúlason var byggingafulltrúi árin 1945-1958.


Atvinnunefnd

Það var að sjálfsögðu mikið hagsmunamál fyrir iðnaðarmenn á Suðurnesjum og aðrar atvinnustéttir þar að fá að sitja sem mest að vinnu og framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli, en út af því vildi bregða og olli það því, að stundum varð naumt um vinnu hjá iðnaðarmönnum í Keflavík. Svo var til að mynda háttað árin milli 1950 og 1960. Félagið beitti þá og oftar atfylgi sínu til þess að bæta úr þessari skák og standa á rétti Suðurnesjamanna í þessu veigamikla atvinnumáli og leitaði í því efni samstarfs við stéttarfélög.

Félagsfundur samþykkti til að mynda ályktun um þetta mál í janúar 1958, þar sem lýst var skýlaust yfir, að félagið teldi Keflavíkurflugvöll fyrst og fremst á atvinnusvæði sínu og bæri því verktökum Suðurnesja og vinnustéttum þar öðrum fremur réttur til verkframkvæmda og vinnu á Keflavíkurflugvelli, enda hefði utanríkisráðherra sá sem þá fór með málefni vallarins kveðið svo á.

Í ályktun þessari sagði ennfremur, að þar sem fslenskir aðalverktakar, og fleiri verktakar á vellinum, virtust reyna að sniðganga fyrirmæli ráðherrans um þetta í æ ríkari mæli, yrði ekki við ríkjandi ástand unað öllu lengur. Því samþykkti fundurinn að kjósa fimm manna atvinnunefnd til þess að starfa að úrbótum í þessum málum með samvinnunefnd verkalýðsfélaganna á svæðinu.

Lagt var til að rætt yrði við utanríkisráðherra og málið skýrt fyrir honum, og síðan farið á fund stjórnar Íslenskra aðalverktaka og rætt við hana. Einnig skyldi beitt þeim stéttarfélagslegu aðgerðum, sem nauðsynlegar kynnu að reynast til þess að ná rétti félagsmanna, t. d. að stöðva ráðningar manna í ýmis verk á vellinum þangað til úrbætur fengjust.

Í atvinnunefndina voru kjörnir: Björn Magnússon, Þorbergur Friðriksson, Reynir Eiríksson, Eyþór Þórðarson og Hafsteinn Ólafsson.
Nefndin vann ötullega að málinu í samvinnu við önnur stéttarfélög, og verulegar lagfæringar fengust, en félögin hafa ætíð þurft að vera vel á verði um hagsmuni sína þarna.


Keflavíkurverktakar

Eins og kunnugt er var uppi nokkur hreyfing hjá íslenskum stjórnvöldum um brottför bandaríska hersins af Keflavíkurflugvelli árin 195456 og voru hafnar viðræður um hana við Bandaríkjastjórn. Þessi óvissa hafði í för með sér nokkurn samdrátt framkvæmda á vellinum og um leið minnkandi atvinnu þeirra, sem að þeim unnu, ekki síst iðnaðarmanna. En í árslok 1956 var viðræðum um brottför hersins frestað um óákveðinn tíma, og lifnaði þá smátt og smátt yfir framkvæmdum þar aftur.

Iðnaðarmenn á Suðurnesjum höfðu þá fullan hug á að tryggja sér þessa atvinnu og verja rétt sinn til hennar eins og fram kemur hér að framan. Iðnaðarmannafélagið beitti sér á þessum árum fyrir ýmsum öðrum ráðstöfunum en þar er lýst, þar á meðal að efla samtök með iðnaðarverktökum innan sinna vébanda í því skyni að standa vörð um atvinnuréttindin á vellinum og verða færari um að taka þar að sér verk, einkum hin stærri.

Í janúar 1957 komu rafvirkjar innan Iðnaðarmannafélagsins saman til fundar til þess að ræða horfur í atvinnumálum sínum. Kom þá fram sú hugmynd að stofna verktakafélag meðal rafvirkja. Málið var undirbúið og hlutafélagið Rafmagnsverktakar Keflavíkur stofnað á öðrum fundi 1. febr. 1957. Tilgangur fyrirtækisins var m. a. að afla sér verktakaheimilda til starfa á Keflavíkurflugvelli. Forgöngumaður þessarar félagsstofnunar var Guðmundur Sveinsson, rafvirkjameistari.

Á aðalfundi Iðnaðarmannafélagsins 9. apríl 1957 voru þessi mál á dagskrá og lá þá í loftinu, að framkvæmdir væru að aukast á vellinum. Þá var samþykkt ályktun þess efnis að félagið beitti sér fyrir stofnun alhliða verktakafyrirtækis aðallega til þess að taka að sér varnarliðsframkvæmdir. Á þessum fundi var jafnframt kosin nefnd til þess að fara á fund utanríkisráðherra. Hann gaf nefndinni fyrirheit um starfsleyfi á Keflavíkurflugvelli til handa verktakafélögum á Suðurnesjum ef stofnuð yrðu. Var þá undinn að því bugur fyrir forgöngu Iðnaðarmannafélagsins að stofna fjögur verktakafélög til viðbótar rafmagnsverktakafélaginu. Hinn 16. apríl 1957 voru eftirtalin verktakafélög stofnuð með nær 60 stofnendum: Byggingaverktakar Keflavík­ur hf., Járniðnaðar og pípulagningaverktakar Keflavíkur hf., Málaraverktakar Keflavíkur hf. og Múraraverktakar Keflavíkur hf. Þessi félög voru oftast kölluð Keflavíkurverktakar einu nafni, enda hafa þau jafnan haft mikið samstarf um samningagerð, skrifstofuhald og tilboð í verk. Múraraverktakar hf. hættu þó störfum sem félag á öðru starfsári vegna verkefnaskorts.

Flestir þáverandi félagsmenn Iðnaðarmannafélagsins í þessum greinum gerðust meðstofnendur Keflavíkurverktaka. Þróun mála varð sú á næstu árum, að Keflavíkurverktakar önnuðust viðhaldsverkin á flugvallarsvæðinu en Íslenskir aðalverktakar flestar nýbyggingar. Þessi skipun var að fyrirmælum utanríkisráðherra. Keflavíkurverktakar höfðu oftast um 100 manns í vinnu á vellinum, og viðhaldsverkefnin munu að jafnaði hafa numið um fjórða hluta af árlegum varnarliðsframkvæmdum, en starfsmönnum, búsettum á Suðurnesjum, hefur fjölgað mjög mikið í öllum starfsgreinum á flugvellinum síðustu tvo áratugina. Á þeim tíma hefur íslenskum flugvallarstarfsmönnum þar fjölgað um 5600 og sú aukning að verulegu leyti Suðurnesjamenn, og er Keflavíkurflugvöllur nú langstærsti vinnustaður launþega á Suðurnesjum. Barátta Iðnaðarmannafélagsins til þess að tryggja heimamönnum þessa atvinnu, sem er á heimaslóðum þeirra, hefur því án efa borið mikinn árangur.

Keflavíkurverktakar starfa enn af miklum þrótti árið 1983, og auk verka á vellinum hafa þeir tekið að sér margvíslegar framkvæmdir utan hans á félagssvæðinu og tryggt með því atvinnu heimamanna til mikilla muna. Stofnun og starf þessara samtaka hefur því án vafa orðið árangursríkt til þeirrar þróunar sem Iðnaðarmannafélagið vildi stefna að.

Þessi mál bar oft á góma á fundum í Iðnaðarmannafélaginu og var þá gjarnan bent á það, hve óhagstætt það væri eflingu atvinnulífs á Suðurnesjum, að íslenskir aðalverktakar á Keflavíkurflugvelli hefðu ekki aðalstöðvar sínar á Suðurnesjum við stjórn og skipulag verka þar. Á aðalfundi félagsins 1980 var málið t. a. m. á dagskrá og stjórninni falið að leita eftir fjárfestingu þessara aðila þar syðra, þar sem fjárafli þeirra af atvinnurekstrinum væri mestur, en arðurinn síðan fluttur brott úr byggðarlaginu.


Suðurnesjaverktakar

Fyrir milligöngu iðnaðarfélaga í Keflavík stofnuðu iðnaðarmenn á Suðurnesjum nýtt verktakafyrirtæki, Suðurnesjaverktaka hf., 14. des. 1974. Hluthafar í því voru 92 úr mörgum iðngreinum. Tilgangurinn var að taka að sér ýmis verkefni í varnarliðsframkvæmdum. Ástæður til þessarar félagsstofnunar töldu stofnendur vera þær, að þeir hefðu verið útilokaðir frá aðild að þeim verktakafyrirtækjum, sem áður höfðu haslað sér völl í yarnarliðsframkvæmdum, þar sem þau hefðu verið lokuð fyrir nýjum hluthöfum sem vildu fá aðstöðu til þess að taka að sér verkefni á Keflavíkurflugvelli.

Suðurnesjaverktakar hófu síðan starfsemi á vellinum, aðallega sem undirverktakar íslenskra aðalverktaka, og sem verktakar viðhalds á eignum íslenska ríkisins þar syðra.


Sókn í raforkumálum

Nefna mætti fjölmörg atvinnu og framfaramál Suðurnesja, sem Iðnaðarmannafélagið hefur veitt atfylgi fyrr og síðar á starfsferli sínum og reynt að knýja fram. Eitt hið fyrsta var raforkumálið, þ. e. lína frá samveitu er tæki við af litlu rafstöðvunum þar syðra. Á fyrstu árum félagsins var rafmagnsskortur tilfinnanlegur og stóð iðnaði sem þurfti á raforku að halda í einhverjum mæli mjög fyrir þrifum.

Þessi mál komu til umræðu á félagsfundi 18. okt. 1936, á þriðja ári félagsins, en þá var unnið að Sogsvirkjun hinni fyrstu, Ljósafossvirkjun, og var mönnum ofarlega í huga að þurfa ekki að bíða rafmagnsins lengi eftir að hún kæmi í gagnið. Guðni Magnússon hafði framsögu um þetta mál á fundinum og flutti tillögu þess efnis að skora á hreppsnefnd Keflavíkurhrepps að leita þegar samvinnu við nærliggjandi sveitarfélög um undirbúning að raflínu frá Sogsvirkjun til Suðurnesja, og yrði að því stefnt að línan yrði tilbúin jafnsnemma aflstöðinni við Sog. í tillögunni er bent á, að ódýrt og nægilegt rafmagn sé helsta skilyrði fyrir viðgangi iðnaðar, og það séu iðnaðarmenn og verk þeirra, sem landsmenn verði að byggja framfarir sínar á að miklu leyti, en auk þess ætti sívaxandi ófriðarhætta að minna á, að kol og olía geti þegar minnst varir orðið torfengnir og dýrir aflgjafar.

Þessi ályktun var samþykkt samhljóða, og hún átti efalaust töluverðan þátt í því, að hreppsnefndir og fleiri aðilar knúðu á um lagningu raflínu til Suðurnesja, og það verk var fyrr á ferðinni en annars, og flýtti því fyrir því að Suðurnesjamenn fengu raforku frá samveitu.


Skipasmíðar

Félagið reyndi snemma að greiða fyrir smíði fiskibáta á Suðurnesjum, og það tók virkan þátt í langri og strangri baráttu sem háð var til þess að koma á fót fullkominni dráttarbraut til skipaviðgerða og nýsmíða. Hlutafélagið Skipasmíðastöð Njarðvíkur var stofnað í febrúar 1945 undir forystu Bjarna Einarssonar, skipasmiðs, sem þá hafði stundað skipasmíðar í Keflavík um hríð og veitti stöðinni og félaginu síðan forstöðu. Þetta var mikið atvinnufyrirtæki, líklega hið stærsta á þessum slóðum að frátöldum Keflavíkurflugvelli og unnu þar tugir manna. Árið 1964 hóf þetta félag undirbúning að gerð miklu stærri dráttarbrautar við hlið hinnar eldri, og ríkisstjórnin veitti vilyrði um stofnlán. Hins vegar varð þessi róður langur og þungur enda þurfti mikið fjármagn til, en mannvirkjagerð hófst þó 1965, og 1970 var nýtt og stórt skipasmíðahús risið en herslumunurinn þó eftir við brautina. Hún var þó tekin í notkun að loknum þessum fyrsta áfanga. Dráttarbrautin hefur síðan leyst af hendi mörg og stór verkefni. Framkvæmdastjóri var þá Loftur Baldvinsson.


Byggðaáætlun Suðurnesja

Iðnaðarmannafélagið gerði ítrekaðar samþykktir til stuðnings því, að gerð yrði vandleg byggðaáætlun fyrir Reykjaneskjördæmi, og á aðalfundi 1970 var enn skorað á sveitarstjórnir á Suðurnesjum, Samband ísl. sveitarfélaga og Efnahagsstofnun ríkisins að gera byggðaáætlun fyrir Reykjanes sunnan Hafnarfjarðar, því að það sé „mjög brýnt, að framtíðarþróun atvinnuvega á Suðurnesjum verði undirbyggð með alhliða áætlanagerð, er taki til allra þátta atvinnulífsins og kannaðir verði framtíðarmöguleikar þessara og nýrra þátta í atvinnulífi Suðurnesja".


Byggingafélag iðnaðarmanna

Iðnaðarmannafélagið hafði frá öndverðu á stefnuskrá sinni að „styðja gagnleg iðnaðarfyrirtæki". Það hefur það gert fyrr og síðar með ýmsum hætti, en stærsta framtak þess á þeim vettvangi er vafalítið stofnun og starfræksla Byggingafélags iðnaðarmanna.

Þær hugmyndir komu stundum fram í félaginu fyrr á árum, einkum þegar atvinna í byggingaiðnaði dróst saman, að hagkvæmt gæti verið að félagið hefði sjálft byggingar íbúða eða annars húsnæðis með höndum. Af því varð þó ekki fyrr en 1969. Þá hafði um hríð átt sér stað slíkur samdráttur og hinni gömlu hugmynd var hrundið fram.

Eftir umræður um málið á félagsfundum og í stjórn var Byggingafélag iðnaðarmanna stofnað 22. maí 1969. Stofnendur voru rúmlega sextíu, og þeir einir gátu orðið félagar sem voru fullgildir félagsmenn í Iðnaðarmannafélaginu, en það var þeim öllum opið til þess að fyrirbyggja að það yrði fámennur hagsmunahópur. í fyrstu stjórn byggingafélagsins voru Asbjörn Guðmundsson, Þorleifur Sigurþórsson, Bjarni Einarsson og Ólafur Sigurðsson.

Félagið fékk síðan lóð undir fjölbýlishús milli Mávabrautar og Flugvallarvegar í Keflavík. Húsið var byggt í tveimur áföngum og alls í því 40 íbúðir. Það var þá stærsta íbúðarhús á Suðurnesjum. Þetta var mikið framtak, og þjónaði tvennum tilgangi, annars vegar veitti þetta byggingaiðnaðarmönnum atvinnu þegar naumt var um hana, og hins vegar bætti það úr íbúðaþörf. íbúðirnar seldust vel. Framhald varð þó ekki á þessari starfsemi byggingafélagsins og kom það helst til að byggingamenn höfðu næga atvinnu og ýmsir nýir byggingaaðilar, bæði einstaklingar og félög, komu til sögu og sáu fyrir nægum íbúðabyggingum.

Byggingafélag iðnaðarmanna hafði í hyggju að annast íbúðabyggingar víðar á félagssvæðinu og bauð fram þá þjónustu, en nægilega miklar óskir komu ekki fram um hana og varð því ekki af.


Gæðamatsnefnd

Á árunum 1967-68 hóf Iðnaðarmannafélagið að beita sér fyrir því að komið yrði á fót í samvinnu við Neytendasamtökin gæðamatsnefnd, sem hægt væri að skjóta til ágreiningi um gæði iðnverka og framkvæmda. Samvinnu var leitað um þetta mál við Iðnaðarmannafélag Hafnarfjarðar og Neytendasamtökin og var gert ráð fyrir að þessi samtök bæði yrðu aðilar að þessari stofnun. Þau tóku málinu vel, og það komst á allgóðan rekspöl, jafnvel svo að starfsreglur voru samdar og drög að samstarfssamningi gerð árið 1968. En þó fór svo að málið drapst á dreif og varð ekki af framkvæmdum, aðallega vegna fráhvarfs Neytendasamtakanna. Það má telja skaða, því að slík nefnd hefði átt að geta orðið að gagni til þess að auka vandvirkni og ryðja ágreiningsefnum viðskiptavina úr vegi.


Iðnráð

„Í hverjum kaupstað skal vera iðnráð". Þessi setning stóð í iðnaðarlögunum frá 1. júlí 1937, og þótt þeim lögum væri breytt 1939 og oftar hafa þessi ákvæði um iðnráð í kaupstöðum landsins staðið þar óbreytt. Þessi sömu ákvæði eru í reglugerð sem sett var um þessar greinar laganna.

Keflavík hlaut kaupstaðarréttindi 1. apríl 1949. Á fundi í Iðnaðarmannafélaginu 13. júní það sama ár. var rætt um þessi ákvæði iðnaðarlaganna, sem nú ættu að taka gildi í Keflavík. Fundurinn taldi að samkvæmt þeim og reglugerðinni um iðnráð ætti félagið að hafa forgöngu um kosningu þess og vinda að því bráðan bug. Kosin var þriggja manna nefnd til þess að athuga hvernig haga bæri undirbúningi og löglegri stofnun ráðsins og gera tillögur um það.

Leið svo fram til 31. ágúst, en þann dag boðaði stjórn Iðnaðarmannafélagsins til fundar með þeim aðilum sem lögum samkvæmt áttu aðild að iðnráði. Fundurinn var fjölmennur og var þar þorri þeirra iðnaðarmanna sem kosningarétt áttu til iðnráðs. Samkvæmt lögum og reglugerðinni skyldi sitja í iðnráði einn fulltrúi fyrir hverja iðngrein, svo og varafulltrúi. Þar sem bæði sveinafélag og meistarafélag eru á sama stað í sömu iðngrein, kjósa bæði félögin þó aðalfulltrúa og varafulltrúa. Kosning fór fram, og fyrsti fundur Iðnráðs Keflavíkur og nágrennis var haldinn 12. september sama ár. Þar var kjörin stjórn iðnráðs, Guðjón Hjörleifsson, múrari, formaður, og meðstjórnendur Ágúst Pétursson, húsgagnasmiður og Jóhann Pétursson, klæðskeri. Varamenn í stjórninni voru Magnús Þorvaldsson, húsasmiður, Egill Þorfinnsson, skipasmiður, og Gísli Guðmundsson vélvirki.

Þessi stjórn sat að mestu óbreytt til 1959, en þá var kjörið nýtt iðnráð og í stjórn þess Guðni Magnússon, málari, formaður, og meðstjórnendur Jón Einarsson, húsasmiður, og Guðlaugur Kristófersson, rakari.
Á fundi í Iðnaðarmannafélaginu í nóv. 1959 kom fram, að ráðið hefði haldið fáa fundi síðustu árin og sum enga, en störf þess hvílt mjög á formanni og einstökum ráðsmönnum og starfið því verið heldur laust í reipum. Þá hefði ekki verið kosið í ráðið á tveggja ára fresti eins og mælt væri fyrir í reglugerð.

Næstu árin var starfið meira og fleiri fundir haldnir, og árið 1968 var fjölgað í stjórn iðnráðsins úr þremur í fimm. Í stjórn þess nú 1983 eru Guðni Magnússon, Ásgeir Skúlason, Halldór Pálsson, Jón Einarsson og Þorleifur Sigurþórsson.

 • Helstu verkefni iðnráðs hafa verið þessi:

  Að gera tillögur til iðnfræðsluráðs um skipun prófnefnd a.

  Að fjalla um og gefa umsagnir um umsóknir um réttindaveitingar skv. 35. gr. laga um iðnfræðslu.

  Að fjalla um kærumál vegna brota á iðnlöggjöfinni og vera lögreglustjórum til ráðuneytis í slíkum málum.

  Að vera iðnaðarmönnum almennt til aðstoðar og ráðgjafar í ágreiningsefnum og öðrum vandamálum þeirra.

  Að gera tillögur til lögreglustjóra um veitingu meistarabréfa.

  Á aðalfundi iðnráðsins 28. jan. 1980 var samþykkt að breyta nafni þess úr Iðnráð Keflavíkur og nágrennis í Iðnráð Suðurnesja.

Iðngarðar

Á fundi Iðnaðarmannafélagsins um iðnþróunarmál 22. okt. 1981 flutti Eyþór Þórðarson tillögu um að félagið beitti sér fyrir samtökum um byggingu iðngarða í Keflavík. Formaður félagsins flutti málið síðan við bæjarstjórn, og árangurinn varð sá, að bæjaryfirvöld úthlutuðu byggingarsvæði fyrir iðngarða og létu gera skipulagsuppdrátt að slíkum byggingum. Á árinu 1982 hófust byggingar þarna og hafa nokkrir einstaklingar og fyrirtæki þegar sest þar að með starfsemi sína og verkstæði. Munu vafalaust rísa þarna fleiri hús á næstunni, samstæð að gerð. Slík samröðun verkstæða í þéttbýli þykir nú hagkvæm.