header

Andrés Kristjánsson:

Iðnaðarmannafélag Suðurnesja

I. hluti --- II. hluti --- III. hluti

Stofnun félagsins

Iðnaðarmannafélagið í Keflavík, síðar Iðnaðarmannafélag Keflavíkur og nágrennis og loks Iðnaðarmannafélag Suðurnesja, eins og nafn þess er nú, var stofnað 4. nóv. 1934 af 23 iðnaðarmönnum, og er talið að aðeins einn þeirra hafi haft fullgild iðnréttindi með iðnskólaprófi, Skúli H. Skúlason, húsasmiður. Einn stofnenda félagsins, Guðni Magnússon, málari, sem enn er á lífi og hefur alla stund starfað í félaginu og stutt það á marga lund, var m. a. formaður þess alllengi, lýsti ástandi á félagssvæðinu þegar félagið var stofnað með eftirfarandi orðum í ávarpi á árshátíð félagsins 4. nóv. 1971:

„Oft var tvísýnt um framtíð félagsins á fyrstu árum, og okkur sem þá vorum í stjórn þess og að berjast við að halda í því líftórunni hefur víst aldrei dreymt um að það ætti eftir að verða svo fjölmennt og öflugt, sem raun ber nú vitni um. Fyrir 37 árum var kreppa í landinu, atvinnuleysi mikið, lífsbaráttan hörð, kaupið lágt og atvinnuöryggi ekkert. Þá þóttist hver hólpinn sem gat ráðið sig á fast mánaðarkaup, þótt lágt væri, í því var nokkurt öryggi.

Iðnfyrirtæki voru tæpast til, sem hægt væri að nefna því nafni. Keflavík var þá tiltölulega lítið þorp. Atvinna var svo að segja eingöngu bundin við sjávarútveg, og ef hann brást kom það fljótlega niður á þeim fáu iðnaðarmönnum sem hér voru, bæði í minnkandi atvinnu og töpuðum vinnulaunum. Ennfremur kom það alloft fyrir að iðnaðarmenn buðu fram vinnu sína fyrir lægra kaup en jafnvel þá tíðkaðist til að hafa eitthvað að gera. Það var því full þörf á því fyrir iðnaðarmenn að bindast einhverjum samtökum þótt veik væru og lítils megandi".

Vafalaust hafa iðnaðarmenn rætt það nokkuð sín á milli þessi árin, hvort ekki væri reynandi að koma á einhverjum samtökum iðnaðarmanna til þess að treysta atvinnustöðuna og bæta úr því öryggisleysi sem Guðni Magnússon lýsti í ávarpi sínu, áður en hafist var handa um félagsstofnun. Aðalhvatinn til þess var vafalaust nýlega sett lög um iðju og iðnað (1927), en þau mörkuðu tímamót í réttarstöðu iðnaðarmanna í landinu, svo og stofnun og starf iðnaðarmannafélaga sem þá voru risin á legg annars staðar á landinu. Þau höfðu verið að fæðast árin eftir þessa lagasetningu, og sum voru jafnvel eldri.

Fyrsta félagsstofnun iðnaðarmanna hér á landi var Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík, stofnað 3. nóv. 1867, og iðnskólahald hófst á vegum þess félags 1869, þótt lög um iðnnám væru ekki sett fyrr en 1893. Á næstu áratugum voru stofnuð nokkur iðnaðarmannafélög hér og hvar um landið, en rúmir sex áratugir liðu þangað til slík hagsmunafélög starfsstétta og launafólks komu til sögu á Suðurnesjum. Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, sem enn starfar, var stofnað 28. des. 1932, og síðan fæðast önnur stéttarfélög þar í fyllingu tímans.

Iðnaðarmannafélögin sem tekin voru til starfa á þessum árum og fyrr voru þó ekki stéttarfélög með venjulegasta sniði, því að þar voru meistarar, sveinar og iðnnemar saman í flokki, og svo var og er enn í Iðnaðarmannafélagi Suðurnesja. Félagið var því ekki, og er ekki enn, eiginlegt stéttarfélag heldur almennt hagsmuna- og menningarfélag iðnaðarmanna, þótt það beitti sér mjög fyrir kaup- og kjaramálum á fyrstu áratugum sínum, eða þangað til iðngreinarnar tóku þau mál og alla samninga um þau í eigin hendur í deildum og sérfélögum, sem þó voru innan vébanda Iðnaðarmannafélagsins. Reynslan hefur sýnt, að þrátt fyrir skipta hagsmuni launamanna og vinnuveitenda í iðnaðarstétt áttu þeir fleiri sameiginleg framfara- og áhugamál, og á þeim grunni var félagsstarfið reist.

Sigmundur Þorsteinsson, múrari, mun hafa gengist öðrum fremur fyrir undirbúningi að stofnun félagsins og er því frumkvöðull hennar. Hann kvaddi nokkra starfsbræður sína á fund í matstofu þeirra Ásbergshjóna að Hafnargötu 26 í Keflavík 21. okt. 1934 til þess að ræða um möguleika á stofnun og starfi iðnaðarmannafélags. Þann fund munu hafa setið auk Sigmundar þeir tveir menn aðrir sem þar voru kjörnir í undirbúningsnefnd með honum, þeir Þórarinn Ólafsson, trésmiður, og Skúli H. Skúlason, húsasmiður. Nokkrir fleiri munu hafa verið á þessum undirbúningsfundi, þótt ekki sé nú vitað gerla hverjir þeir voru. En nefndarmennirnir eru öðrum fremur hvatamenn félagsstofnunarinnar að frumkvæði Sigmundar.

Nefndin lét hendur standa fram úr ermum á næstu dögum og aflaði gagna og fyrirmynda að slíku félagi. Hún leitaði m. a. liðsinnis Iðnaðarmannafélags Hafnarfjarðar við samningu lagafrumvarps, og naut aðallega við það leiðsagnar Emils Jónssonar, þáverandi formanns Hafnarfjarðarfélagsins. Aðstoðar landssamtaka iðnaðarmanna var einnig leitað í þessu skyni.

Síðan boðaði undirbúningsnefndin til fundar í gamla barnaskólanum í Keflavík 4. nóv. 1934, þar sem formlega var gengið frá stofnun félagsins, lög þess samþykkt og fyrsta stjórn kjörin. Þórarinn Ólafsson setti fundinn fyrir hönd nefndarinnar og skýrði frá þeim undirbúningi sem fram hefði farið, og hvert telja mætti hlutverk og starfssvið slíks iðnaðarmannafélags. Sigmundur Þorsteinsson var fundarstjóri og Guðni Magnússon, málari, fundarritari. Nítján iðnaðarmenn sátu stofnfundinn, samþykktu félagsstofnunina og gerðust stofnfélagar með því að undirrita stofnlögin. Stjórn félagsins var kjörin og skipuðu hana: Þórarinn Ólafsson, trésmiður, formaður. Guðmundur Skúlason, trésmiður, gjaldkeri. Skúli H. Skúlason, húsasmiður, ritari. Sigmundur Þorsteinsson, múrari, varaformaður. Guðni Magnússon, málari, vararitari.

Aðrir sem gengu í félagið á stofnfundinum voru þeir Guðmundur M. Jónsson, rafvirki. Guðjón M. Guðjónsson, rakari. Kristberg Dagsson, múrari. Jón P. Friðmundsson, málari. Ingimundur Vigfússon, trésmiður. Einar Magnússon, trésmiður. Skarphéðinn Kristbergsson, múrari. Halldór Þórðarson, trésmiður. Guðmundur Kr. Guðmundsson, trésmiður. Magnús Björnsson, járnsmiður. Jón Þorbjörnsson, járnsmiður. Árni V. Magnússon, trésmiður. Svavar Sigfinnsson, múrari. Árni Bjarnason, klæðskeri.

Á 100. fundi Iðnaðarmannafélags Suðurnesja, sem haldinn var 1959, voru þrír þálifandi stofnendur félagsins. Talið frá vinstri: Guðni Magnússon, Þórarinn Ólafsson og Jón Páll Friðmundsson. Þetta voru alls 19 menn, en samþykkt var á fundinum tillaga um að bjóða nokkrum iðnaðarmönnum, sem ekki voru á stofnfundinum, að gerast stofnfélagar. Þeir urðu fjórir, sem gengu í félagið á næstu tveimur fundum, eða fyrir árslok 1934: Þorsteinn Árnason, trésmiður. Bergsteinn Sigurðsson, trésmiður. Karl Guðjónsson, rafvirki. Valdimar Björnsson, trésmiður. Stofnfélagar voru því taldir 23 úr átta eða níu starfsgreinum, flestir trésmiðir, en einnig áttu þar fulltrúa múrarar, málarar, járnsmiðir, rafvirkjar, rakarar og klæðskerar og fleiri.

Nafn og félagssvæði

Nafn félagsins var „Iðnaðarmannafélagið í Keflavík", en það var snemma kallað Iðnaðarmannafélag Keflavíkur og hlaut það nafn með lagabreytingu 1942 og bar það til 1958 er nafni þess var enn breytt í Iðnaðarmannafélag Suðurnesja eins og það heitir nú. Samkvæmt fyrstu lögum er félagssvæðið ekki ákveðið skýrum stöfum, en nafnið bendir til að stofnendur hafi haft Keflavík eina í huga. Hins vegar fór fljótt svo, að iðnaðarmenn úr nágrannabyggðum sóttu um upptöku í félagið enda varð þróunin sú að Suðurnesin öll urðu æ samfelldara atvinnusvæði, og ekki hægt um vik að hafa sérstök iðnaðarmannafélög í öllum byggðum þessa landshluta.

Iðnaðarmönnum utan Keflavíkur var því veitt innganga í félagið og stækkaði félagssvæðið þannig af sjálfu sér. Á aðalfundi 1941, þegar lagabreytingar voru á dagskrá, urðu nokkrar umræður um þetta, og kom þá fram hjá stjórn félagsins, að ekki hefði enn þótt fært að ákveða stærð félagssvæðisins með skýrum ákvæðum í lögum þess, og það var ekki heldur gert að því sinni.

Þessi mál voru síðan rædd af ýmsum gefnum tilefnum á næstu missirum, og á aðalfundi 1956 var stjórninni falið að ræða við ófélagsbundna iðnaðarmenn og smáfélög þeirra á Suðurnesjum um möguleika á sameiningu í eitt félag. Á aðalfundi 1958 var nafni félagsins síðan breytt í „Iðnaðarmannafélag Keflavíkur og nágrennis", og félagssvæði þess ákveðið „Reykjanesskagi sunnan Hafnarfjarðar". Þessu nafni hélt félagið til 1965, er því var breytt í „Iðnaðarmannafélag Suðurnesja", með Reykjanesskagann allan sunnan Hafnarfjarðar að félagssvæði, eins og áður var.

Félagatala og inntökuskilyrði

Eins og áður segir voru stofnfélagar 23, og þeim fór hægt fjölgandi næstu árin, en eftir að félagssvæðið varð allt Reykjanes og deildaskipting kom til fjölgaði þeim ört. Þegar félagið var 15 ára 1950 voru félagar aðeins 37, en á þrítugsafmælinu 1964 voru þeir orðnir 180, tveimur árum síðar, 1966, eru félagar 220, og 1972 eru þeir orðnir 272. Tíu árum síðar, árið 1982, eru 341 félagi í Iðnaðarmannafélagi Suðurnesja fyrstu lögum félagsins voru inntökuskilyrðin orðuð svo: „Upptöku í félagið geta þeir fengið sem meirihluti á lögmætum fundi samþykkir ef þeir:

1. Stunda iðn sem aðalatvinnu.
2. Hafa lært handiðn og tekið sveinspróf eða hafa kunnáttuvottorð, sem telst jafngott.
3. Stunda nám hjá meistara, sem er félagsmaður. Þó hafa þeir ekki atkvæðisrétt nema í sínum eigin málum".

Umsóknir skyldu vera skriflegar og fylgja meðmæli tveggja félagsmanna. Hver félagsmaður átti að rita nafn sitt á meðlimaskrá, og fylgdi þeirri undirritun skuldbinding um að halda gildandi lög og reglur félagsins. Eins og sjá má af þessum inntökuskilyrðum voru iðnnemar einnig aðilar að félaginu fyrst í stað, en það var aðeins til ársins 1939. Þá var inntökuskilyrðum breytt og þriðji liðurinn um iðnnemana felldur brott. Þessi inntökuskilyrði stóðu síðan óbreytt allt til 1973, en þá voru þau orðuð svo: „Upptöku í félagið geta þeir fengið, sem meirihluti á lögmætum fundi samþykkir, ef þeir hafa sveinspróf eða önnur jafngóð réttindi". Þessi ákvæði eru enn í gildi árið 1983.

Gagngerar skipulagsbreytingar

Eins og áður segir var nafni félagsins breytt í Iðnaðarmannafélag Suðurnesja, en samfara því og eftir það áttu sér stað gagngerar skipulagsbreytingar á félaginu og í kjölfar þeirra margvísleg aukning og breyting á starfsemi þess í samræmi við nýjar þarfir, stórfjölgun félagsmanna og stækkun félagssvæðisins. Á árunum 1963-65 starfaði laganefnd í félaginu að undirbúningi málsins. Formaður hennar var Eyþór Þórðarson, en aðrir í nefndinni Bjarni Einarsson og Elías Nickolaison. Á aðalfundi 1964 lagði formaðurinn fram tillögur nefndarinnar um skipulagsbreytinguna og lagabreytingar í samræmi við hana, er stjórnin og nefndin höfðu fjallað um í sameiningu. Samkvæmt þeim tillögum skyldi tekin upp deildaskipting. Þessar breytingar voru samþykktar á fundinum og komust þær á árið eftir.

Samkvæmt lögum félagsins þá og síðar er þetta þó aðeins heimild en ekki skylda, og er einstökum mönnum eftir sem áður heimil félagsvist án þess að teljast til deilda, enda þarf minnst 8 félagsmenn til þess að mynda sérstaka deild með því sjálfræði sem lögin gera ráð fyrir. Einnig var heimilt að stofna sérstaka deild í félaginu með 2-3 iðngreinum sameiginlega, ef henta þætti. Hver deild hafði sérstaka stjórn þriggja manna, og formaður hennar var fulltrúi og milligöngumaður við stjórn Iðnaðarmannafélagsins, sem átti að sjá deildunum fyrir starfsfé eftir ákveðnum reglum. Hver deild átti að vera sjálfstæður aðili að Landssambandi iðnaðarmanna, og félagatala deilda því að dragast frá félagatölu Iðnaðarmannafélagsins við kosningu fulltrúa á Iðnþing. Innganga í Iðnaðarmannafélag Suðurnesja er ætíð persónuleg og einstaklingsbundin þrátt fyrir aðild sérfélaganna.

Þegar árið 1965, er skipulagsbreytingin komst á, urðu deildir eða sérgreinafélögin fimm. Þau voru þessi: Trésmiðafélag Suðurnesja, Járniðnaðarfélag Suðurnesja, Múrarafélag Suðurnesja, Málarafélag Suðurnesja og Pípulagningamannafélag Suðurnesja. Þessi deildaskipting hefur þó að sjálfsögðu breyst töluvert síðan. Sérfélögunum hefur fjölgað, deildir breyttust í sjálfstæð félög, svið þeirra breyttist og skipting átti sér stað milli verktaka og hreinna launþega í greinunum. Skipulagsbreytingin í Iðnaðarmannafélaginu stuðlaði að þeirri þróun og auðveldaði hana, en jafnframt var varðveittur sá mikilvægi samstarfsvettvangur, sem Iðnaðarmannafélagið var og hafði verið, um sameiginleg menningar- og framfaramál allra iðnaðarmanna og iðnaðar á svæðinu. Aðild sérfélaganna varð ekki heldur sjálfgefin með sama hætti og gert var ráð fyrir með deildaskiptingunni 1965, heldur ákveðin af einstaklingum sjálfum eða með samþykktum sérfélaganna. Stutt yfirlit um stofnun og starf þessara sérfélaga í Iðnaðarmannafélagi Suðurnesja eru birt hér á eftir þessu söguágripi, svo saga þeirra verður ekki rakin nánar hér.


Tilgangur og nauðsyn skipulagsbreytingarinnar

Vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur í kjölfar skipulags-breytingarinnar er fróðlegt að glöggva sig á þeim tilgangi og markmiðum sem fyrir forystumönnum félagsins vöktu með henni, og liggur beinast við að tilfæra hér ummæli þáverandi formanns félagsins, Þorbergs Friðrikssonar, og ritara þess, Ingvars Jóhannssonar, í viðtali sem Suðurnesjablaðið Faxi átti við þá um málið í 10. tölubl. 1965. Þar segir m. a.: „Aðalforsenda breytinganna er í stuttu máli sú, að iðnaðarmannafélögin, eins og þau voru fyrir breytinguna, voru ekki kjarafélög, heldur höfðu þau aðallega á stefnuskrá sinni menntunar- og réttindamál ásamt fleiru. Við þessa breytingu bætast nú kjaramálin í tölu hinna fyrrnefndu, og nú er ætlunin að koma á kjarasamningum í sérfélögunum. Munurinn á slíkum blönduðum félögum og hreinum kjarafélögum er fyrst og fremst sá að gera þetta með samningum án verkfalla. Jafnframt hefur þessi breyting í för með sér, að hér eftir fá Suðurnesjamenn fleiri kjörna fulltrúa á Iðnþing Íslendinga. Þannig áttum við 7 fulltrúa á nýafstöðnu Iðnþingi í stað 3 áður.
Þá verður eftir þessa breytingu auðveldara að koma við fræðslunámskeiðum innan hinna ýmsu sérgreina, þar sem þau framvegis verða haldin innan hvers sérfélags".

Þess má geta, að fleiri iðnaðarmannafélög sem starfað höfðu með líku sniði og Iðnaðarmannafélag Keflavíkur, höfðu þá komið á svipuðu skipulagi eða voru með það í deiglunni. Sérfélögin áttu eftir þetta að annast kjarasamninga sína sjálf, en þó að hljóta liðsinni aðalfélagsins, ef ástæða þótti til.


Stjórn og fulltrúaráð

Í fyrstu lögum Iðnaðarmannafélagsins í Keflavík voru ákvæði um að þrír menn skyldu skipa aðalstjórn félagsins - formaður, ritari og gjaldkeri. Tveir skyldu vera til vara - varaformaður og vararitari. Þessu var breytt tveimur árum síðar á þann veg, að stjórnina skipuðu 5 menn með þeim starfsheitum er áður getur, en engin ákvæði voru um varastjórn. Stjórnarmenn skyldu kosnir skriflega á aðalfundi, hver fyrir sig, og mátti endurkjósa þá til eins árs í senn.

Síðar var lögunum breytt á þá lund, að formaður skyldi kosinn hvert ár sérstaklega, en aðrir stjórnarmenn til tveggja ára í senn, og gengu þá tveir úr stjórn á hverjum aðalfundi. Stjórnin skipti eftir það sjálf með sér verkum að öðru leyti en formennskunni. Þá voru og kjörnir tveir félagslegir endurskoðendur og einn til vara, einnig fulltrúar á Iðnþing og í ráð og stofnanir sem félagið var aðili að með sama hætti.

Félagið setti sér fundarsköp sem það hefur starfað eftir. Samkvæmt þeim setti formaður eða varaformaður fund og var honum heimilt að kjósa sér fundarstjóra ef hann vildi ekki stjórna fundi sjálfur. Honum var skylt að svara öllum spurningum sem til hans voru gerðar og kveða upp úrskurð ef deilt var um skilning á lögum eða fundarsköpum. Fundargerð síðasta fundar skyldi jafnan lesin upp í fundarbyrjun. Nafnakall var skylt í atkvæðagreiðslu, ef einhver fundarmanna óskaði þess.

Með skipulagsbreytingunni 1965 var stofnað fulltrúaráð félagsins. Fulltrúaráðið var stjórn félagsins að viðbættum formönnum eða fulltrúum deilda og sérfélaga innan Iðnaðarmannafélagsins. Fyrsti fundur þess var haldinn 4. júní 1965. Auk stjórnar félagsins, sem í voru Þorbergur Friðriksson, Ingvar Jóhannsson, Sigurður R. Guðmundsson, Eyþór Þórðarson og Jón H. Jónsson, sátu þennan fyrsta fund fulltrúar sérfélaganna eða deildanna fimm, sem þá höfðu verið stofnaðar, Jón V. Einarsson, Trausti Einarsson, Kristinn Guðmundsson, Guðmundur B. Jónsson og Kristján R. Guðmundsson.

Næstu 5-6 árin voru haldnir 2-4 fulltrúaráðsfundir árlega og fjölluðu um margvíslegt samstarf deildanna í félaginu, en eftir það hætti fulltrúaráðið að mestu störfum í þeim stakki.


Markmið og verkefni

Markmið og aðalverkefni félagsins var sett fram í 2. gr. félagslaganna við stofnun á þessa leið: „Tilgangur félagsins er að efla menningu, menntun og hagsmuni iðnaðarmanna og styðja gagnleg iðnaðarfyrirtæki". Þessi markmiðsgrein félagsins hefur staðið og stendur enn óbreytt í lögum félagsins, en um 1970 var bætt við hana: „Auka samvinnu og félagslyndi meðal iðnaðarmanna og sjá um að vinnulaun félagsmanna svari kröfum tímans. Hafa eftirlit með því, að félagsmenn sitji fyrir vinnu í iðngrein sinni". Þótt þessum setningum væri bætt við, olli það í raun ekki teljandi breytingu á verkefni félagsins, því að þeim málum sem þar eru nefnd hafði félagið reynt að sinna frá öndverðu.


Réttindamálin

Meðal helstu verkefna félagsins alla tíð hefur verið að þoka áleiðis réttindamálum félagsmanna og iðnaðar af margvíslegu tagi. Meðal stofnenda voru fáir sem höfðu það sem kalla mátti fullgild starfsréttindi í iðngreinum sínum. Það varð því fyrsta réttindamálið sem félagið beitti sér fyrir að kanna hvernig stuðla mætti að því að þeim fjölgaði. Það var til að mynda helsta dagskrármál annars fundar þess 2. des. 1934 að fjalla um „skilyrði félaga til þess að fá réttindi." Sigurður Þorsteinsson hafði framsögu um það og umræður urðu miklar. Stjórninni var síðan falið að leita upplýsinga um það. Hún vann ötullega að málinu við yfirvöld og fékk úrskurð um réttindi og réttindaöflun til handa flestum þeim félagsmönnum sem um var að ræða. Samkvæmt þeim úrskurði skyldu 5 þegar fá meistarabréf, 7 áttu að taka sveinspróf en 3 að bæta nokkru við námstíma sinn. Félagið vann síðan töluvert að þessum málum og átti mikinn hlut að því að koma þessum réttindamálum í fastan farveg í samræmi við lög og reglur, er skýrðust mjög á næstu árum, og jafnframt var félagið vel á verði um það að iðnaðarmenn nytu þessara réttinda sinna og hamlaði gegn því að iðnréttindalausir menn gengju í verk þeirra. Var það oft á tíðum örðugt þar sem mikil fólksfjölgun og vaxandi verkefni í iðngreinum fóru saman á næstu áratugum. Einnig varð félaginu stundum þungur róður að hindra störf iðnaðarmanna sem áttu heima utan félagssvæðisins. Félagið beitti sér oft og einatt fyrir því að félagsmenn nytu réttar síns til starfa og verktöku á Keflavíkurflugvelli.

Um margvísleg önnur réttindamál er snertu einstaka félagsmenn hefur einnig verið að ræða fyrr og síðar á starfsævi félagsins. Í stuttu máli má segja, að félagið hafi alla stund verið brjóstvörn iðnaðarmanna á Suðurnesjum í réttindamálum þeirra.


Kaupgjalds- og kjaramál

Þegar Iðnaðarmannafélagið í Keflavík var stofnað ríkti mikið misræmi og ringulreið í kaupgjalds- og kjaramálum stéttarinnar á félagssvæðinu. Raunar var kauptaxti iðnaðarmanna enginn, og fyrir kom að iðnaðarmenn unnu fyrir 90 aura á klukkustund, sem var taxti verkamanna þá. Það varð því annað megin viðfangsefni félagsins að freista þess að koma betri skipan á þessi mál, samræma kaup og kjör, bæta vinnuskilyrði og hækka kauptaxta. Þessi mál komu þegar til umræðu á fjórða fundi 20. jan. 1935. Valdimar Björnsson reifaði þau fyrstur en taldi þó viðsjárvert að hækka kaup að svo stöddu. Skoðanir voru nokkuð skiptar um aðgerðir og kauptaxtann. Þórarinn Ólafsson, formaður félagins, varaði við því að láta þessi mál valda sundrungu í félagsskapnum. Niðurstaða fundarins varð sú að kjósa 5 manna nefnd í málið - kauptaxtanefnd. Þessir menn skipuðu fyrstu kauptaxtanefnd félagsins: Valdimar Björnsson, Sigmundur Þorsteinsson, Guðni Magnússon, Þorsteinn Arnason og Svavar Sigurfinnsson. Hlutverk nefndarinnar var að gera tillögur um kauptaxta og vinnusamninga. Tillögur nefndarinnar voru lagðar fram á næsta fundi, 17. febrúar, og voru mikið ræddar þá og á næsta fundi, en ekki afgreiddar fyrr en á fundi 2. júní.


Kauptaxtar auglýstir

Þá var samþykkt að ákveða og auglýsa kauptaxta trésmiða, múrara og málara kr. 1.30 á klukkustund í dagvinnu, sem teldist frá kl. 7 að morgni til kl. 6 á kvöldi. Fyrir eftirvinnu og helgidagavinnu átti að greiða kr. 1.80, og starfsmenn að fá hálfa klukkustund til kaffidrykkju tvisvar á dag án kaupfrádráttar ákvæðisvinnu skyldi fylgt Reykjavíkurtaxta í sama hlutfalli og væri milli tímavinnutaxta þessara staða, en þessi auglýsti taxti iðnaðarmanna í Keflavík var lítið eitt lægri en í Reykjavík.

Þá voru einnig samþykkt ákvæði um verktilboð og verklýsingar. Vinnusamninga skyldi gera skriflega og fylgja full trygging fyrir vinnulaununum. Bannað var félagsmönnum að ganga í verk annarra félagsmanna, sem hefðu lagt niður vinnu vegna vanefnda á verksamningi, fyrr en viðkomandi hefði afsalað sér verkinu. Þrátt fyrir nokkurn ágreining í umræðum um þessi mál voru þessar ályktanir gerðar með öllum greiddum atkvæðum á fundinum. Þessir kauptaxtar voru síðan auglýstir og reglunum dreift meðal félagsmanna. Hér var að sjálfsögðu aðeins um lágmarkskauptaxta að ræða.

Síðan voru kaupgjalds- og kjaramál rædd í félaginu á fjölmörgum fundum næstu áratugina, breytingar og viðbætur við fyrri reglur gerðar og auglýstar, og félagið í raun sækjandi og verjandi í þessum málum fyrir iðnaðarmenn á félagssvæðinu þangað til skipulagsbreytingin var gerð 1965. Árið 1956 var því bætt við, að kaup verkstjóra skyldi vera 15% hærra en lágmarkstaxtinn, og 1937 var töluvert fjallað um ráðstafanir til tryggingar því að iðnaðarmenn fengju kaup sitt reglulega. Nefnd var sett í málið, og að tillögu hennar samþykkt, að greiðsluskil kaups skyldu fara fram vikulega, hvern laugardag, nema öðru vísi væri ákveðið með sérstökum samningi. Drægist greiðslan fimm daga eða meira fram yfir þau tímamörk, skyldu félagsmenn leggja niður vinnu þar til lausn fengist. Ákveðið var að félagið gerði skrá um alla þá vinnukaupendur sem ekki stæðu í skilum, og áttu félagsmenn að tilkynna stjórninni ef vanskil yrðu, og væri félagsmönnum óheimilt að vinna hjá þeim aðilum fyrr en þeir hefðu greitt launaskuldina. Síðar þetta sama ár. var þó samþykkt að breyta þessu og launagreiðslur ákveðnar á hálfs mánaðar fresti eða annan hvern laugardag árslok 1937 var lágmarkskaup iðnaðarmanna hækkað í kr. 1.50.


Kauptöxtum í Reykjavík fylgt

Á næstu árum voru nokkrar breytingar gerðar á samþykktum um kaup og kjör félagsmanna, og 1941 var kauptaxtinn færður upp í kr. 1.80 að viðbættri dýrtíðaruppbót. Kaup nýsveina var ákveðið kr. 1.65. Þeir sem fyrir húsbyggingum stæðu skyldu hafa 10% hærra kaup en sveinar. Helgidagavinna var með 75% álagi. Ýmis fleiri nýmæli um kjör og vinnuréttindi voru og sett, svo sem um slysatryggingar.

Samningar náðust þó ekki um þetta kaup og kjör við vinnukaupendur að sinni, og næsta árið var raunar enginn kauptaxti gildandi, enda komu gerðardómslög þá til og bönnuðu nýja samninga. Upp úr þessu þjarki tóku félagsmenn að hallast að því að fylgja sem mest kauptöxtum í Reykjavík. Næstu árin miðaðist kaupgjaldsbarátta félagsins mjög við þessa samræmingu, og hafði hún komist á að mestu um 1950.

Félagið fjallaði einnig oft um vinnutímann og margvíslega aðra vinnuhagræðingu og gerði samþykktir um þau efni. Þar réð ekki einsýnt launasjónarmið, heldur var jafnan litið til fleiri átta og höfð í huga vinnuafköst og vinnugæði og tillit tekið til atvinnuástands og hagsmuna byggðarlagsins. Jafnan var reynt að taka eðlilegt tillit til vinnukaupenda og hagsmuna þeirra, og má segja að samstarf þessara aðila hafi verið mjög gott þegar á allt og hinn langa samstarfstíma á miklu framkvæmda- og umbrotaskeiði er litið.

Á fyrstu starfsárum félagsins var vinnuvikan mjög löng eða 55-60 klukkustundir, eða 10 stundir á dag sex daga vikunnar, en styttist þó smám saman á laugardögum. Fljótlega tók félagið að vinna að því að stytta dagvinnuvikuna, en litlar breytingar urðu á henni fyrsta áratuginn, styttist þó fremur en hitt.


Vinnudagurinn

Á félagsfundi vorið 1945 var mjög um það rætt meðal félagsmanna að stíga það skref að ákveða 48 stunda vinnuviku, en um þetta voru skiptar skoðanir. Sett var nefnd í málið og aðra þætti kaupgjalds- og kjarasamninga sem voru þá á döfinni. Nefndin lagði til að vinnuvikan yrði talin 52 klst. en breytingartillaga frá Bjarna Einarssyni um 48 stunda vinnuviku var samþykkt. Þessi samþykkt markar því tímamót í kjarabaráttu félagsins um vinnutímann.


Eftir 1950 tók meðferð félagsins á kaupgjalds- og kjaramálum að breytast. Félagið hætti að vera beinn aðili að samningum um þau, þar sem þeir féllu æ meira í landsfarveg eða voru gerðir af deildum og sérfélögum. Kaupgjaldsmálin urðu því æ minna umræðuefni á fundum félagsins, einkum eftir skipulagsbreytinguna 1965. Ymis önnur kjara- og atvinnumál voru þó áfram ofarlega á baugi eins og önnur hagsmuna- og framfaramál iðnaðarmanna almennt.


Uppmælingaskrifstofa

Það mun hafa verið í mars 1964 sem því var fyrst hreyft á félagsfundi að setja á stofn uppmælingaskrifstofu fyrir iðnaðarmenn á félagssvæðinu og kom þegar fram mikill áhugi á því, enda var þörfin orðin brýn. Launagreiðslur eftir uppmælingum iðnverka höfðu þá mjög færst í vöxt á landinu. Umræður snerust í fyrstu um það, hver ættu að vera störf þessarar skrifstofu og hvaða iðngreinar hefðu þegar uppmælingataxta eða væru að koma honum á. Einnig var rætt um hvernig kostnaður af starfseminni ætti að greiðast. Þá þótti einnig sýnt að skrifstofan gæti jafnframt leyst af hendi ýmsa aðra þjónustu fyrir Iðnaðarmannafélagið og sérgreinafélögin, svo sem upplýsingaþjónustu og innheimtu.

Stjórn félagsins vann síðan að þessu máli í nánu samráði við stjórnir sérfélaganna, og á aðalfundi 1965 skýrði hún frá fyrstu athugun sinni á rekstri þjónustuskrifstofu fyrir iðnaðarmenn á félagssvæðinu. Mál þetta var allfjölþætt og þurfti mikillar fjárhagslegrar könnunar við. Trésmiðafélag Suðurnesja beitti sér mjög fast fyrir málinu.

Á fyrsta fundi stjórnar og fulltrúaráðs eftir skipulagsbreytinguna, 4. júní 1965, var ákveðið að Iðnaðarmannafélagið setti á stofn skrifstofu, sem jafnframt því að sinna félagsþörfum annaðist ýmsa þjónustu fyrir sérfélögin, þar á meðal uppmælingu vinnu og útreikning hennar eftir uppmælingataxta félaganna. Eyþór Þórðarson hafði öðrum fremur unnið að þessu máli fyrir stjórnina og undirbúið fundinn. Á þessum fundi var einnig gengið frá ráðningu fyrsta starfsmanns skrifstofunnar. Hann var Hreinn Óskarsson, húsasmiður, og var stjórninni falið að gera ráðningarsamning við hann á þeim grundvelli sem hann hafði lagt til. Þá skyldi stjórnin einnig semja við sérfélögin um uppmælingaprósentur.


Stjórnin vann síðan að því að skjóta fótum undir rekstur skrifstofunnar næstu mánuði, og á félagsfundi í okt. 1965 var gefin ýtarleg skýrsla um skrifstofuna, sem þá hafði verið starfrækt nær fjóra mánuði, þar sem hún hafði verið opnuð um miðjan júní. Þessa fyrstu mánuði hafði orðið nokkur halli á rekstri hennar, eða nær 22 þús. Var síðan gerð grein fyrir áætluðu starfi og kostnaði næstu mánuði. Skrifstofan var þá þegar farin að leysa af hendi ýmis önnur störf fyrir félögin. Fyrstu uppmælingu sína gerði skrifstofan 28. júní og til ársloka var gerð 241 uppmæling á vegum hennar. Upphaflega var þóknun skrifstofunnar fyrir mælingar ákveðin 3%, en það þótti sumum sérfélögum of hátt, svo að gjaldið var lækkað í 2%, en það reyndist of lágt.

Fyrstu störf skrifstofunnar önnur voru einkum við eflingu lífeyrissjóðs, öflun kjarasamninga og kauptaxta af öðrum félagssvæðum og færsla meðlimaskrár. Þó fór svo er leið á árið 1966 að starfsmanni skrifstofunnar þótti illa fara saman að leysa önnur félagsstörf af hendi samfara mælingunum og sagði hann upp starfi, en samið var við hann um að annast mælingarnar einar áfram. Hins vegar féllu önnur þjónustustörf við félagið að mestu niður um sinn. Mælingastofan bar sig sæmilega með 2% mælingagjaldi auk 1% stofngjalds.


Í ársbyrjun 1966 var valin nefnd manna til þess að fylgjast með skrifstofunni f. h. stjórnarinnar og skipuðu hana Eyþór Þórðarson, Einar Þorsteinsson og Óli Þór Hjaltason. Eftir það sá nefnd og síðan sérstök stjórn að mestu um mælingastofuna, og var formaður hennar Jón B. Kristinsson síðustu árin sem stofan var starfrækt. Rekstur hennar gekk allvel og verkefni voru nóg til þess að standa undir rekstri. Það átti verulegan þátt í því, að framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli voru allmiklar, og verktakar þar leituðu töluvert til mælingastofunnar. Nokkur ágóði varð flest ár af rekstrinum þangað til árið 1972, en þá minnkuðu tekjur hennar verulega og mælingagjöld innheimtust verr en áður, svo að útistandandi skuldir söfnuðust.

Í júní 1972 barst stjórn mælingastofunnar bréf frá Iðnsveinafélagi Suðurnesja þar sem tilkynnt var, að Iðnsveinafélagið mundi opna mælingastofu á eigin vegum 1. okt. um haustið. Taldi stjórn mælingastofunnar þá brostnar forsendur fyrir rekstri mælingastofu á vegum Iðnaðarmannafélagsins, og var ákveðið að leggja hana niður um næstu áramót. Síðasti starfsmaður mælingastofunnar á vegum félagsins var Atli Hraunfjörð.

Mælingastofa Iðnaðarmannafélagsins var fyrst til húsa að Klapparstíg 7 í Keflavík en fluttist síðar að Hafnargötu 26, og var þar þar til félagið flutti í eigið húsnæði að Tjarnargötu 3.

.