header

Eyþór Þórðarson:

Iðnir og handíðir á liðinni tíð á Suðurnesjum


(Að stofni til erindi flutt í Rotary-klúbbi Keflavíkur 1978)

 

Heimilisiðnaðurinn

Iðnaður - í nútíðarmerkingu orðsins - á ekki langa sögu að baki sem sjálfstæður atvinnuvegur. En handiðn og íðir hafa verið stundaðar á íslenskum heimilum frá upphafi Íslandsbyggðar, því að utanríkisviðskiptin voru stopul og lítil, og heimilin urðu að gera sjálf flesta hluti sem þau þurftu að nota.

Ullarvörur voru mikilvægur þáttur í útflutningi landsmanna allt fram yfir síðustu aldamót, bæði vaðmál og prjónavörur. Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar var vaðmál nær eina útflutningsvara landsmanna, en prjónavörur tóku síðar við, og var útflutningur þeirra einna mestur um aldamótin 1800, en eftir það var tekið að flytja ullina út óunna í vaxandi mæli.

Lengi vel bjó meginhluti þjóðarinnar í sveit eða hafði nokkurn landbúskap, þó við sjávarsíðuna væri. Atvinnuhættir mótuðust af því, að hver og einn aflaði sér sjálfur hinna helstu nauðsynja, svo sem fæðis, klæðis og eldiviðar, með vinnu sinni og sjálfstæðu starfi, og því í flestum tilfellum án gjaldmiðils. Á hverjum bæ og býli voru þeir hlutir sem til þurfti, svo sem smiðja, smíðahús, tæki til klæðagerðar úr ullinni, áhöld til matargerðar úr þeim afurðum sem aflað var, svo og til skógerðar og eldiviðaröflunar, og svo mætti lengi telja. A kvöldvökum í baðstofunni hafði hver maður verk að vinna eftir getu og þroska, en þar var þó ekki síður sinnt hinni andlegu þörf með lestri og kveðskap. Segja má að nær þriðjungur allrar vinnu á stóru heimili hafi verið ýmis konar handiðn eða stórgerðari smíði. í bókinni íslenskir þjóðhættir er þannig lýst heimilisiðnaði fólksins á íslenskum sveitabæ fyrr á tímum:

„Fyrst eftir að sláturtíðinni var lokið var byrjað að vinna á hendur og fætur heimilisfólksins til þess að vera viðbúin vetrinum. En þegar það var búið var tekið til óspilltra málanna við tóvinnu til kaupstaðarvöru. Það var nú sjálfsagt að halda áfram af kappi allan veturinn, en aldrei var þó betur að gert en fyrir jólin. Þá var kappið svo mikið, að fólkið fékk ekki meira en hálfan svefn, og vökurnar urðu stundum svo langar, að skammt var til dags þegar háttað var, og þar sem fólkið tímdi ekki að kveikja, sat það í myrkrinu og hamaðist við prjónaskapinn. Var þá á fyrri tímum ekki svo fágætt að fólk setti vökustaura, sem kallaðir voru, á augnlokin til þess að sofna ekki út af. Stundum var notað baulubein úr þorskhöfði eða eyrnabein úr fiski. Stóðu þá endarnir í skinnið og var mjög sárt að láta aftur augun. Það þótti mjög gott af tveimur kvenmönnum að prjóna peysubolinn á dag, en til var það, að ein stúlka gerði það, þó að fátítt væri. Samt þótti gott að tvær stúlkur skiluðu sex bolum, eða þá fjórum prjónuðum peysum á viku. Margir karlmenn prjónuðu sokka með útiverkunum, og til voru þeir sem skiluðu 4 eða 5 pörum eftir vikuna.

Heldur var tóvara þessi óvönduð, en þótti alltaf betri frá Norðurlandi en Suðurlandi, en best úr Múlasýslum. Kaupmönnum var líka alltaf heldur í nöp við tóvöruna og settu oftast útlendu vöruna hærra móti landvöru en fiski"."

Bóndinn sinnti ekki síður störfum í þágu fiskveiða. Hann sendi vinnumenn sína í verið og var gjarnan sjálfur formaður á áraskipi. En tímar breyttust, áraskipum fækkaði með tilkomu þilskipa, vélbáta og togara. Sjávarþorpin stækkuðu og urðu að bæjum og kaupstöðum. Fólki tók að fækka í sveitum og flytjast á „mölina" eins og kallað var. Svipaða sögu er að segja af handiðnaðinum, hann flyst úr sveitunum í bæina.


Verksmiðjuiðnaður

Nokkrar tilraunir voru gerðar fyrr á árum til þess að koma verksmiðjuiðnaði á fót á Íslandi. Dönsk stjórnvöld munu oftast hafa gengist fyrir þessum tilraunum. Má t. d. nefna saltvinnslu á Reykjanesi við Djúp, auk brennisteinsvinnslu í Þingeyjarsýslu og Krísuvík.

Nítjánda öldin var tími iðnbyltingar í mörgum löndum, en á Íslandi var engu slíku að heilsa. Í byrjun aldarinnar er starfsemi iðnaðarstofnananna, eða Innréttinganna sem kenndar voru við Skúla Magnússon, að fjara út. Í Innréttingunum hafði m. a. verið reynt að fullvinna það hráefni, sem Íslendingar áttu einna best, ullina. Fengist hafði mikill ríkisstyrkur, en kunnáttuleysi, óhöpp og andspyrna riðu fyrirtækinu að fullu.

Sú tilraun sem gerð var með stofnun Innréttinganna í því skyni að hefja hér á landi verksmiðjurekstur bar ekki þann ávöxt sem til var ætlast, og Íslendingar héldu áfram að vinna úr sinni ull með hefðbundnum hætti og við litlar framfarir alla nítjándu öldina.21

Handiðnaður

Ekki var óalgengt að Íslendingur sigldi til Danmerkur fyrr á öldum til að nema handiðn af einhverju tagi. Árið 1637 kom einn þeirra úr slíkri ferð með vorskipinu frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur. Hann hét Hallgrímur Pétursson og hafði numið járnsmíði og latínu í kóngsins borg. Skúli Magnússon, landfógeti, ritaði merka ritgerð á árunum 1782-84 er hann nefndi Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Hann segir m. a. um starf iðnaðarmanna í Gullbringusýslu:

„Almennt byggja bændur sjálfir hús sín, og vissir menn meðal þeirra smíða fiskibátana. Eru þeir þá nefndir tré- og járnsmiðir eins og annars staðar á Íslandi, en auk þess eru og aðrir það.Þá eru einnig í Gullbringusýslu timburmenn, snikkarar, skósmiðir og beykjar sem starfa einkum hjá versluninni, ennfremur eru þar járnsmiðir, einn gullsmiður, einn sútari, einn hálfgildings úrsmiður, einn skraddari og einn steinsmiður og múrarameistari. Hafa þessir menn allir numið handiðn sína í Kaupmannahöfn. Helsta starf járnsmiða er að búa til nagla, bæði með hnoðum og án þeirra, og annað af járntagi í báta, öngla og hnífa, sláttuljái og torfljái, skeifur og tilheyrandi nagla, hjarir og skrár ásamt lyklum og ennfremur önnur verkfæri, svo sem stór og smá skurðarverkfæri, axir, hefiltennur og sporjárn og fleira því líkt. Má taka fram í þessu sambandi að sláttuljáir eru gerðir bæði úr járni og stáli, eru þeir nálega einnar álnar langir og tveggja þumlunga breiðir. Menn slá þá fram við eld einu sinni á dag og brýna þá auk þess með brýni. A sama hátt er farið með torfljái sem torf er skorið með á hús og hey".


Upphaf iðnaðarstétta

Íslenskir valdamenn og stórbændur hindruðu með stuðningi danskra stjórnvalda myndun þéttbýliskjarna hér á landi. Veturseta við verslunarstaðina sem voru við sjávarsíðuna var ekki leyfð. Það er ekki fyrr en 18. ágúst 1786 að konungur úrskurðar að veita 6 verslunarhöfnum hér á landi kaupstaðarréttindi. Heimildir greina ekki frá því, hver var orsök þess að Keflavík voru ekki veitt kaupstaðarréttindi á þeim tíma, en það má telja kynlegt þegar haft er í huga, að Keflavík hafði um langan aldur verið ein stærsta útflutningshöfn hérlendis. Má ætla að nágrennið við Reykjavík hafi mestu ráðið um þetta. Ári síðar lauk því tímabili, sem kennt hefur verið við einokunarverslun Dana á Íslandi og hafði staðið 185 ár, eða frá 1602 til 1787.

Dönsk stjórnvöld lögðu á það ríka áherslu að vel tækist til um stofnun hinna fyrstu kaupstaða og sjávarþorpa, og það var ekki fyrr en slíkar byggðir efldust hér á landi, að raunverulegar iðnaðarstéttir gátu risið á legg, því að í kaupstöðunum og þorpunum varð nægilegt þéttbýli til þess að iðnaðarmenn gætu komið vinnu sinni í verð sér til framfæris.

Með sérstakri tilskipun, dagsettri 17. nóv. 1786, eru til tekin þau réttindi sem íbúar þéttbýlisstaða áttu að hafa, og var þeim skipt í tvo flokka, borgara og tómthúsmenn, auk embættismanna. í flokki borgara voru verslunar og handiðnaðarmenn og höfðu þeir einir ákvörðunarrétt um málefni bæjanna. Handiðnaðarmönnum var sérstaklega veittur réttur til þess að reka handiðn sína, hafa námssveina og selja smíðisgripi sína og vinnu. Þeir áttu að láta skrá sig í borgarabókina og skyldu fá borgarabréf.

Af ákvæðum tilskipunarinnar er auðséð, að stjórnin hefur viljað stuðla að því að hér risu upp öflugar iðnaðarstéttir í þéttbýli, og má segja að þetta hafi tekist og þær hafi eflst mjög er fram liðu stundir og haft góða afkomu. Áhugi stjórnarinnar fyrir eflingu iðnaðarstarfa í kaupstöðum kemur vel fram í hinum konunglega úrskurði frá 18. ágúst 1786 um afnám konungsverslunar, en þar segir svo í 11. grein, að „þeim sem vilja taka upp og kosta fiskveiðar eða nokkurn annan atvinnuveg sem landinu er nytsamur í heild sinni, svo og iðnaðarmönnum þeim sem landinu eru nauðsynlegastir og nytsamlegastir, er vilja setjast að í kaupstöðum þar, verða eftir nánari tillögu stjórnarráða þeirra, er hlut eiga að máli, veittir slíkir styrkir og hlunnindi sem nauðsynlegt kynni að verða eftir atvikum".

Það er ekki um að villast að hér er iðnaðarmönnum sem setjast að í kaupstöðum heitinn bæði fjárstyrkur og fyrirgreiðsla til þess að koma iðngrein sinni á laggirnar. Meðal þeirrar fyrirgreiðslu sem iðnaðarmenn fengu frá stjórnvöldum þeirra tíma voru skattfríðindi, 100 ríkisdala fjárstyrkur, ókeypis lóð og verðlaun fyrir byggingaframkvæmdir, en auk þess var dönskum iðnaðarmönnum heitið fríu fargjaldi ef þeir vildu flytjast til Íslands. Öll þessi fyrirgreiðsla var háð nokkrum skilyrðum, m. a. urðu iðnaðarmenn að endurgreiða styrkinn ef þeir fluttust brott.
Ekki mátti stofna til hagsmunafélaga iðnaðarmanna á Íslandi um þessar mundir, enda lýstu dönsk yfirvöld því yfir, „að þau væru orðin sárþreytt á iðnaðargildunum heima í Danmörku. En til þess að auka áhuga Íslendinga fyrir iðnnámi ákváðu dönsk stjórnvöld „að engum almúgamanni megi veitast passi til brottferðar af Íslandi nema ferðin sé farin til iðnaðarnáms."

Ráðstafanir danskra stjórnvalda til að auðvelda iðnaðarmönnum að koma sér fyrir á hinum nýju þéttbýlisstöðum höfðu þau áhrif, „að á síðustu þrettán árum 18. aldar og á öndverðri 19. öld var talsvert aðstreymi iðnaðarmanna til landsins. Aðallega voru þetta smiðir, bæði á tré, járn og góðmálma, söðlasmiðir, tunnusmiðir, bókbindarar og bakarar. Iðnaðarmenn þessir voru sá vísir, sem iðnaðarstétt nútímans spratt af".


Þróun iðnstéttanna

Myndun iðnaðarmannastéttanna á Íslandi fór þó hægt af stað, og má það m. a. ráða af því að árið 1860 er talið að ekki hafi nema 1,1% þjóðarinnar lifað af iðnaði eða handverki og aðeins 2,6% þrem áratugum síðar, árið 1891. Iðnaðarframleiðsla hér á landi beindist í fyrstu einkum að handverki og vinnslu afurða höfuðatvinnugreinanna tveggja, einkum landbúnaðar, en einnig sjávarútvegs. Vélvædd vinnsla ullar og mjólkur hófst um síðustu aldamót, en rúmum áratug síðar við sjávarafla með framleiðslu fiskimjöls og lýsis.

Á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar verða miklar breytingar á íslensku þjóðfélagi, og grundvöllur er lagður að nýjum atvinnuháttum. Þjóðin fékk heimastjórn 1904, og fyrsta rafstöðin var tekin til almenningsnota sama árið. Um svipað leyti var farið að setja vélar í íslenska fiskibáta, og Íslendingar eignuðust fyrsta togarann 1905.

Þróun iðnaðarins er samt enn hægfara á þessum árum, enda ekki um að ræða neinar stökkbreytingar í tækni. Árið 1910 hafa þó 8,3% Íslendinga framfæri sitt af iðnaði, og er um að ræða nær þreföldun þess hlutfalls á tveimur áratugum.

„Upp úr aldamótunum síðustu eftir að stjórnin fluttist inn í landið leystust úr læðingi margs konar öfl til framfara meðal þjóðarinnar. Eldur félagslegrar vakningar fór um landið, tækni á verklegum sviðum hleypti lífi og fjöri í atvinnuvegi til lands og sjávar, nýir byggingahættir voru teknir upp, húsakostur landsmanna var bættur. Það var mikil breyting þegar hætt var að endurbyggja hina gömlu, góðu torfbæi, sem að falli voru komnir, en í þeirra stað byggð snoturleg og hreinleg timburhús og síðan steinhús".6

Bátasmíði á Suðurnesjum

Öldum saman fóru mestar hagleikssögur af góðum skipasmiðum þegar handiðnaðarmanna var getið á Suðurnesjum. Landsmenn höfðu allt frá landnámi fram yfir síðustu aldamót stundað sjó á áraskipum, allt frá tveggja til tíu manna farkostum. Margri glæsilegri fleytu hafði verið ýtt úr vör á liðnum öldum, og margan kjörvið höfðu Íslenskir bátasmiðir farið höndum um og telgt til í skipin. En oft hafði þó reynst örðugt að afla nýtilegs efniviðar, þó að gnægð rekaviðar væri hendi nær.

Verslunarskýrslur frá einokunartímabilinu sýna þó að nokkuð hefur verið flutt til landsins af skipaviði, og í Alþingisbókum má sjá kvartanir um að ekki sé fluttur inn skipaviður, eða að hann sé ekki nægilega góður. í verslunarskýrslum frá 1655 er getið um innflutning efnis til skipasmíða til átta hafna, og umtalsverður hluti þess fór til Keflavíkur og Bátsenda. Af þessu má ráða að nokkrar skipasmíðar hafi átt sér stað á Suðurnesjum fyrir 300 árum.

Talið er að hið forna skipslag sem tíðkaðist í Noregi á landnámsöld hafi haldist allan þann tíma sem áraskip voru smíðuð hér á landi og með litlum breytingum allt fram á okkar daga.

„Hróður hinna listfengu skipasmiða barst víða um héruð, og margir þeirra urðu landsfrægir fyrir iðju sína og list. Þeir sköpuðu sitt sérstaka „lag" á skipin og skeikaði í engu sem til öryggis mátti verða".

Mestu skipasmiðirnir

Á átjándu og nítjándu öldinni kvað mest að skipasmíðum í Höfnunum. Um skipasmíðar á Suðurnesjum verður hér að öðru leyti farið eftir greinargerð Ólafs Ketilssonar á Óslandi í Höfnum, en hún birtist í Iðnsögunni 1943. Hinn fyrsti bátasmiður, sem hann hefur sagnir af í Hafnahreppi, er Guðni sýslumaður í Kirkjuvogi (f. 1714, d. 1780). Hann fluttist þangað frá Stafnesi 1752. Hann var hinn mesti smíðavölundur bæði á hús og skip, smíðaði m. a. með Bjarna Vigfússyni mági sínum tólfæring mikinn sem hafður var til geirfuglafanga til Geirfuglaskerja og vöruflutninga milli Grindavíkur og Bátsanda.

Næstu skipasmiðir í Höfnum voru þeir Brandur Guðmundsson hreppstjóri (f.1771, d. 1845) og Björn sonur hans (d.1869). Þeir feðgar voru báðir annálaðir fyrir vit sitt og afl, og eru óhrekjanlegar heimildir fyrir því að þeir lyftu teinæringi „af stokkunum" tveir einir og færðu hann á annan stað. Þeir smíðuðu stór og smá skip í rúma þrjá áratugi bæði í Höfnum og Grindavík, og ennfremur fyrir bændur sunnan Garðskaga í hinum forna Rosmhvalaneshreppi.

Næsti skipasmiður í Höfnum eftir þá feðga var Eggert Björnsson, Brandssonar Guðmundssonar (f. í Kirkjuvogi 1825, d. 1905), „og er óhætt að telja Eggert mesta skipasmið allra Suðurnesja er sagan greinir. Hann byrjaði sem barn að smíða eftirlíkingar af öllum stærðum skipa, teinæringum, áttæringum og minni fleytum, og um tvítugsaldur var hann farinn að smíða skip fyrir bændur, bæði hér og utan sveitar, einkum þó í Grindavík og Miðneshreppi. Var Eggert svo mikil hamhleypa við skipasmíðar, að hann smíðaði teinæringinn aleinn á þremur vikum, en áttæringinn á hálfum mánuði, og svo hagur var hann, að hann þurfti aldrei að bera fjöl við skör, þegar hann felldi borð saman, hann renndi aðeins auganu til skararinnar á byrðingnum, þegar hann hjó hina skörina og svo blindféllu skarirnar saman þegar hann bar saman, og svo var hann kappsamur, að hann stóð alltaf upp með síðasta bitann í munninum og þaut svo tyggjandi út en lét færa sér kaffið hálfkælt af brennivíni og þambaði það allt í einum teyg".

Ólafur Ketilsson hefur það eftir bróðursyni Eggerts, að hann hafi smíðað 495 skip, en honum finnst sú tala há, þó að hann viti að Eggert féll aldrei verk úr hendi árið um kring í 55 ár. Honum þykir trúlegt að fullur helmingur skipanna hafi verið teinæringar og áttæringar, að minnsta kosti hafi hann í tíð Ólafs smíðað fleiri hinna stærri skipa en minni. Hann smíðaði líka tvo þilbáta, annan fyrir Sveinbjörn Þórðarson í Sandgerði en hinn fyrir Sigurð Benediktsson í Merkinesi. Báðir bátarnir þóttu afburðagóðir eftir stærð.

Innan Garðskaga (í Gerðahreppi) var skipasmiður að nafni Sigurður Helgason í Presthúsum. Hann mun hafa verið fæddur laust eftir aldamót, 1810-12. Hann þótti ágætur skipasmiður á sinni tíð en mun ekki hafa smíðað stærri skip en sex manna för og þaðan af minni.

„Litlu seinna voru tveir skipasmiðir í Leirunni, Sveinn Björnsson og Nikulás Björnsson. Þeir smíðuðu töluvert af hinum minni skipum fyrir Garð, Leiru og Keflavík. En fyrir og eftir síðustu aldamót fer að verða mikil breyting á skipasmíðum Suðurnesja innan Garðskaga. Þá er það að Þórður í Gróttu og Engeyjar-skipasmiðir fara að smíða skip þar syðra, einkum fyrir Vatnsleysustrandarhrepp, Keflavík, Njarðvík, Leiru og Garð. En 1901 flyst til Keflavíkur mikill skipasmiður, Guðjón Jónsson (f. 1858, d. 1922). Hafði hann lært skipasmíði hjá Þórði í Gróttu. Guðjón var framúrskarandi dugnaðarmaður og vandvirkur svo að annálað var. Voru öll skip hans með svokölluðu Engeyjarlagi. Samtals smíðaði hann 192 skip, þar af 62 áttæringa og er það eftirtektarvert, að af öllum þeim 192 skipum sem Guðjón smíðaði hefur ekki eitt einasta mannslíf tapast allt til þessa dags.

Loks er svo núverandi skipasmiður Gerða- og Vatnsleysustrandarhrepps, Árni Vigfús Magnússon (f. 1887). Hann byrjaði innan tvítugsaldurs að gera við og stækka skip, en á nýsmíði skipa byrjaði hann ekki fyrr en um þrítugsaldur. Samtals hefur hann stækkað, endurbætt og gert við meira eða minna 247 skip, stærri og smærri, en smíðað að nýju 78 skip. Öll eru skip hans með hinu áðurnefnda Engeyjarlagi. Hann var víkingur að dugnaði og vandvirkur að sagt var.

Magnús Jónsson Waage frá Stóru-Vogum var uppi frá 1799-1857. Hann tók sér fyrstur Waage-nafnið. Magnús lærði skipasmíði og stýrimannafræði í Danmörku. Hann smíðaði um 100 báta og tvö þilskip."

Jón Sighvatsson dbrm í Höskuldarkoti í Ytri-Njarðvík (f. 1759, d. 1841) smíðaði alls 21 stærri og minni skip. Hið fyrsta er hann smíðaði einn að stofni til gerði hann 1795. Á árunum 1814-1817 smíðaði hann þilskip en fékk sér til aðstoðar reyndan skipasmið, Gísla á Óseyri. Jón Sighvatsson smíðaði einnig flutningaskip, er var aðallega í förum milli verslunarstaðarins í Keflavík og verstöðvanna við Innnesin.
Í byrjun 19. aldar fer að myndast stétt iðnaðarmanna á Suðurnesjum, en fjölmennastir voru iðnaðarmenn að störfum á vegum hinna dönsku verslana í Keflavík.

Guðmundur Finnbogason á Hvoli í Innri-Njarðvík gerði skrá fyrir Iðnaðarmannafélag Suðurnesja á árinu 1978 um iðnaðarmenn eftir manntölum 19. aldar fram á hina 20. og kemst að þeirri niðurstöðu, að nær 200 manns hafi haft ýmis handiðnaðarstörf að atvinnu á þessu aldartímabili. í formála þessarar skrár kemst Guðmundur þannig að orði:
„Ég hafði ekki aðstæður til að leita upplýsinga um ættir og afrek allra þeirra manna sem hér verða upp taldir. Mörgum þeirra get ég þó gert betri skil að því leyti, en vildi í þessu sem jafnast yfir fara. Örfáir voru lærðir á sitt fag, langflestir höfðu sitt beint frá Guði og náttúrunni, en gátu þó gert marga fallega smíðisgripi sem nú væru kallaðir lærðra manna listaverk. Flestir þurftu þeir að hafa iðnaðarstörfin í hjáverkum. Lífsbaráttan var hörð, þeir sóttu sjó og nokkrir höfðu lítils háttar landbúskap. Vegna þessa var lítið um stórsmíðar, og lengi vel var skipa- og bátasmíðin stærsti liðurinn í trésmíðinni. Járnsmíðin tilheyrði smíði á járnum bátanna, skeifum undir hestana, ljám fyrir heysláttinn, og svo mætti lengi telja.Þótt ég hafi fest ártöl við hvern og einn, eru þau ekki merki þess að viðkomandi hafi einungis verið þar á býli það eina ár, flestallir höfðu búið þar bæði áður og á eftir, sumir langtímum saman".

Árið 1935 voru stofnsett tvö stórfyrirtæki í skipasmíðum og vélaviðgerðum. Það ár er Dráttarbraut Keflavíkur stofnsett.
Á sama tíma lét Eggert Jónsson frá Nautabúi byggja dráttarbraut og vélsmiðju í Innri-Njarðvík. Eggert er talinn hafa átt og rekið eitt umfangsmesta atvinnufyrirtæki á Suðurnesjum á þeim tíma. Hann hóf einnig mikii landakaup í Innri-Njarðvík og atvinnurekstur þar 1922, m. a. rak hann þar, auk dráttarbrautar og vélsmiðju, útgerð, frystihús, niðursuðu, fiskimjölsverksmiðju og olíusölu.10) Á fjórða og fimmta áratugnum voru smíðaðir nokkrir vélbátar í dráttarbrautunum í Keflavík og Innri-Njarðvík.


Atvinnuhættir breytast

Ragnar Guðleifsson lýsti þannig tíðaranda í Keflavík um síðustu aldamót í ritgerð sinni „Samvinna og samtök í Keflavík":

„Laust fyrir síðustu aldamót var Keflavík fámennt fiskiþorp. Bæirnir voru um 20 auk verslunarhúsanna og byggðin mjög dreifð. Flestir bæirnir úr torfi og grjóti, en hús verslananna úr timbri og nokkur nýbyggð timburhús. Lendingarskilyrði eru mjög slæm, aðeins stuttar bryggjur, líklega þrjár hlaðnar úr grjóti með timburþekju eða timburþekju á trébúkkum. Lagðar götur eru hér engar, aðeins mjóir og krókóttir gangstígar heim að bæjum.

Um aldamótin og næstu ár þar á eftir eykst byggð hér í Keflavík nokkuð. Um langan tíma höfðu ungu mennirnir í sveitinni sótt atvinnu sína til verstöðvanna á Suðurnesjum. Margir þeirra höfðu róið og verið formenn á skipum dönsku selstöðuverslananna. Ymsir þessara manna settust hér að er tímar liðu og gerðust þá sjálfstæðir útgerðarmenn. Flestir voru þeir úr austursveitum. Á þessum árum eflist hér félagslíf. Góðtemplarareglan er þá í miklum blóma. Hér er þá starfandi stúkan Vonin nr. 15 og heldur uppi félags- og skemmtanalífi byggðarlagsins.

Um þetta leyti er nýtt tímabil hafið í Íslenskum atvinnumálum. Þilskipaútvegurinn stendur þá í miklum blóma og með honum skapast ný atvinnustétt í íslensku þjóðfélagi."


Byggingaskipulag

Lengst af var allt byggingarland þéttbýlisstaðanna á Suðurnesjum í einkaeign. Lóðamælingar, lóðaúthlutanir og lóðasölur voru í höndum landeigendanna. Hagsmunir landeigendanna réðu því hverjir fengu byggingarlóðir, en ekki kjörnir sveitarstjórnarmenn, sem komu þar hvergi nærri. Þótt lög um byggingarsamþykktir væru sett 1905 og lög um skipulagsskyldu 1921, var þróun þeirra málaflokka hægfara á Suðurnesjum. Það er ekki fyrr en iðnaðarmennirnir sjálfir, sem áttu hagsmuna að gæta, beita áhrifum sínum sem byggingarsamþykktir og skipulagsskylda komast á.

Byggingarsamþykkt og starf bygginganefndar samkvæmt henni á Suðurnesjum komast fyrst á í Keflavík árið 1932, en áratugum síðar í öðrum sveitarfélögum þar syðra. Skipulag samkvæmt lögunum frá 1921 var fyrst staðfest fyrir Keflavík í júní 1934 en í Njarðvík í maí 1949. Umræður urðu þó um skipulagsmál og mæling byggðar var gerð áratugum fyrr. Brunabótafélag Íslands, sem stofnað var 1915, réð Samúel Eggertsson, kennara og mælingamann, til að kortleggja og mæla byggð í Keflavík og Njarðvík 1917.

Keflavík hefur frá fyrstu tíð verið landminnsti byggðarkjarninn á Suðurnesjum. A 19. öldinni og fram á 20. öld var erfitt að fá byggingarlóð í Keflavík. Kaupmennirnir sem áttu Keflavíkurjörðina settu hinum fáu lóðar-leiguliðum sínum þau skilyrði m. a. að þeir mættu ekki hefja verslun þar. Pað var ekki fyrr en 1920 sem úr rættist svo að auðvelt varð að fá byggingarlóðir í Keflavík, en á því ári urðu eigendaskipti að Keflavíkurjörðinni. Duusfyrirtækin sem höfðu átt hana síðan 1848 seldu Matthíasi Þórðarsyni frá Móum hana í febrúar 1920 ásamt öðrum fasteignum sem tilheyrt höfðu Duusfyrirtækjum þar syðra.1" Eftir eigendaskiptin varð það fyrsta verk Matthíasar að láta mæla og kortleggja Keflavíkurbyggðina og skipuleggja byggingarlóðir fyrir nýja byggð, svo og að gera uppdrátt af hafnarmannvirkjum.

Skipulagsuppdrátturinn sem Matthías lét gera af Keflavík var meðal hinna fyrstu korta af þéttbýliskjarna á Íslandi og var gerður ári fyrr en lögin um skipulagsskyldu gengu í gildi, og hann þjónaði hlutverki sínu allt þangað til nýr skipulagsuppdráttur var staðfestur í júní 1934 eins og áður er getið. Þetta var einkaframtak Matthíasar frá Móum, og kortið því aldrei staðfest af stjórnvöldum.Þróunin hefur orðið sú, að nær helmingur íbúanna í sveitarfélögunum sjö á Suðurnesjum býr nú í Keflavík.


Sérstakt sveitarfélag

Fullyrða má að árið 1908 sé eitt hið merkilegasta í sögu Keflavíkur, því þá varð Keflavík sérstakt sveitarfélag. Sama ár var útgerðarfélagið Vísir stofnað af 24 mönnum og félagið stóð síðan fyrir kaupum á m/b Júlíusi, fyrsta vélbátnum sem gerður var út frá Keflavík.

Sama árið var líka hafin bygging skólahússins við Skólaveg, en sú bygging var fyrsta stórhýsi sem gert var úr steinsteypu í Keflavík, og fyrsta húsið sem byggt var í þeim tilgangi einum að vera skólahús. Síminn kom til Keflavíkur á þessu sama merkisári og einnig í Garð og Leiru, og fyrsta gatnagerðin var hafin við Strandgötu, sem nú er Hafnargata. Sparisjóðurinn í Keflavík sem öðrum fremur hefur stutt uppbyggingu á Suðurnesjum var stofnaður 7. nóv. 1907, en starfsemi hans hófst í ársbyrjun 1908.


Vélaöld hefst á Suðurnesjum

Með tilkomu vélbátaútgerðar á fyrstu áratugum 20. aldar lagðist hin hefðbundna árabátaútgerð niður á Suðurnesjum. Fyrsti vélbáturinn, m/b Gammur, var gerður út frá Sandgerði 1906. Vogamenn á Vatnsleysuströnd eignuðust fyrsta vélbát sinn 1907, m/b Von. Ári síðar kom m/b Júlíus til Keflavíkur. Leirubændur keyptu m/b Ágúst 1911. Fyrsti vélbátur Njarðvíkinga, m/b Ársæll, kom 1912. Útgerðarmenn í Garði létu smíða fyrsta vélbát sinn, m/b Gunnar Hámundarson, 1916. Vélbátaútgerð í Grindavík hefst með komu m/b Málmeyjar RE 181 árið 1923, en fyrsta vélin var sett í bát í Grindavík 1926, vertíðarskipið Sigríði.

Vélaöld hefst í atvinnulífi Suðurnesja með tilkomu fyrstu vélbátanna. Það var Sigurður Gíslason (f. 1852, d. 1922), járnsmiður í Garðshorni í Keflavík, sem ráðinn var vélamaður á m/b Júlíus, og þar með varð hann fyrsti vélstjóri og vélaviðgerðarmaður í Keflavík. Hann hafði áður unnið í járnsmíðavinnustofu sinni í Keflavík síðan 1892 og getið sér völundarorð. Hann naut tilsagnar um meðferð vélarinnar hjá dönskum vélamanni, Hansen að nafni, sem komið hafði með m/b Júlíusi til Keflavíkur.

Á næstu árum fjölgaði vélbátum í Suðurnesjahöfnum jafnt og þétt og um leið batnaði hagur allra Suðurnesjamanna með tilkomu nýrra atvinnugreina sem fylgdu í kjölfarið, svo sem þjónustugreina í þágu sjávarútvegsins og byggingaiðnaðar. Okkur, sem erum svo mjög háð vélaafli og vélknúnum tækjum í öllum störfum, finnst vafalaust ótrúlegt að fyrir rúmum 70 árum hafi Suðurnesjamenn háð alla lífsbaráttu sína án véla bæði á landi og sjó.


Vélamenn og járnsmiðir

Af Sigurði Gíslasyni, fyrsta vélamanninum í Keflavík, er það að segja að synir hans, Gísli, Sigurður og Þórður, og Þórarinn Brynjólfsson, fóstursonur hans, nutu allir tilsagnar föður síns í sérgrein hans og urðu vélamenn og járnsmiðir. Sigurður, einn sona Sigurðar Gíslasonar, segir þannig frá störfum þeirra feðga árið 1978:

„Sigurður Gíslason í Litla-Garðshorni í Keflavík fluttist með fjölskyldu sína þangað um eða eftir 1880. Þá byggði hann sér bæ við Aðalgötu og nefndi Litla-Garðshorn. í enda þess húss var afþiljuð kytra og í henni eldsmiðja. Hann vann jöfnum höndum að sjósókn, ýmsum viðgerðum og eldsmíðum. Síðar meir byggði hann annað hús, sem nefnt var sama nafni. Það er nú íbúðarhús Eiríks Sigurðssonar, Aðalgata 12. í kjallara þess húss hafði hann smiðju og stundaði þar margs konar viðgerðir og smíðavinnu, m. a. dengdi hann klöppur o. fl. fyrir Símon Eiríksson steinsmið, sem m. a. hjó til grjótið og hlóð garðana við Duus-húsin. Þegar vélbátarnir komu til sögunnar var Sigurður vélstjóri á fyrsta vélbátnum í Keflavík, m/b Júlíusi, og vann við viðgerðir á vélum eftir því sem mögulegt var við frumstæðar aðstæður. Algengt var að hann ynni að viðgerðum meðan stoppað var í landi milli róðra, þótt tími væri oft knappur.

Þegar vélbátarnir Ársæll úr Njarðvík og Áfram úr Keflavík voru byggðir 1911-1912, smíðaði hann alla bolta og sá um alla eldsmíðavinnu við þá. Þeir voru byggðir við Arnbjarnarvör. Þar var svart pakkhús á sjávarbakkanum milli Edinborgar og Arnbjarnarhúss. í því húsi var aðstaðan við smíðina, en bátarnir byggðir í fjörunni fyrir neðan húsið. Þetta hús stendur enn, en er nú íbúðarhús á bak við skósmíðaverkstæðið. Vélarnar voru settar niður af dönskum manni, Thomsen, sem ílentist hér á landi og rak vélsmiðju í Vestmannaeyj um, „Thomsens-smiðju".

Gísli (f. 1886, d. 1967) fetaði í fótspor föður síns, Sigurðar Gíslasonar. Hann byrjaði snemma smíðar og viðgerðir. Þegar vélar komu í fiskibáta hér, tók hann að sér vélstjórn á vélbátnum Sæfara, sem var annar báturinn, sem fékk aflvél hér. Jafnframt vélstjórninni vann hann að viðgerðum á vélum og fleiru. Sigurður segir svo frá:

„Gísli keypti lítið íbúðarhús við Tjarnargötu (nú nr. 15) á gatnamótum Tjarnargötu og Sólvallagötu. Við vesturhlið hússins byggði hann skúr, sem hann notaði fyrir vélsmiðju. Þar setti hann niður stiginn rennibekk, sem sennilega hefur verið keyptur 1911 eða 1912, og var fyrsti rennibekkur til málmvinnslu sem kom hingað til Suðurnesja. Nú er hann í eigu Hallmanns Sigurðssonar, sonarsonar Gísla, og mun vera í nothæfu ástandi.

Það er því óhætt að segja að fyrsta vélsmiðjan í Keflavík og um leið á Suðurnesjum hafi verið að Tjarnargötu 16. Síðar meir, um 1915-16, keypti Gísli lítið hús við Aðalgötu (5) á gatnamótum Aðalgötu og Túngötu. Hann margstækkaði húsið. í kjallara þess, svo og skúrbyggingu við það hafði hann verkstæðisaðstöðu í mörg ár þar til hann byggði sér sérstakt smiðjuhús á lóðarmörkum sunnan við íbúðarhús sitt".

Afkomendur fyrsta vélamanns í Keflavík skipta nú hundruðum á Suðurnesjum og í þeim hópi er fjöldi iðnaðar- og vélamanna, sem getið hafa sér gott orð. Þess má geta, að bræðurnir Brynjar og Höskuldur Þórðarsynir, sem eiga og reka vélsmiðjuna Óðin í Keflavík, eru sonarsynir Sigurðar Gíslasonar, fyrsta vélamannsins í Keflavík.

Iðnaðarstéttir nútímans

Fullyrða má að upphaf iðnaðarstétta nútímans sé tengt upphafi vélbátaútgerðar. Frá þeim tíma hefur íbúatala á Íslandi nær þrefaldast. Mikill gróandi hefur verið í þjóðlífinu og framfarir stórstígar á öllum sviðum. Segja má að byggð Íslands hafi verið reist frá grunni á þessu tímabili. Þetta nýja tímabil í atvinnusögunni hefur gerbreytt högum Íslendinga. Þó gengið hafi á ýmsu hefur vélbátaútgerðin reynst mjög ábatasamur atvinnuvegur fyrir þjóðarbúið, og hann óx mjög hratt á fyrstu áratugum þessarar aldar. Kaupstaðir og sjávarþorp risu upp við hafnir þar sem stutt var á fengsæl fiskimið. Þar með hefst iðnvæðing Íslands og tilkoma fjölda nýrra atvinnugreina sem byggðust allar beint og óbeint á fiskveiðum. Um langt árabil hafa um 20% allra útflutningstekna þjóðarinnar orðið til í sjávarplássum á Suðurnesjum.

Rafmagnið kemur til Suðurnesja

Orka er undirstaða alls nútíma iðnaðar á Íslandi, en það var ekki fyrr en á þriðja áratug þessarar aldar að raforkan fer að lýsa og létta mönnum störfin á Suðurnesjum.

Það var árið 1920 sem nokkrir framfarasinnaðir menn í Keflavík gerðu tilraun til að bindast samtökum um að kaupa olíuknúða mótorrafstöð, en af framkvæmdum varð þó ekki. Fyrsta rafstöðin var sett upp í Keflavík 1922 og var einkaframtak Matthíasar Þórðarsonar, eiganda Keflavíkurjarðarinnar og Duuseigna í Keflavík, og var notuð í þágu fyrirtækja Matthíasar. Gæslumaður þessarar fyrstu rafstöðvar var Guðmundur Marinó Jónsson (f. 1900, d. 1976). Guðmundur Marinó var því talinn fyrsti rafmagnsmaðurinn í Keflavík og starfaði síðan að rafmagnsmálum Keflavíkur í rúma hálfa öld.

Rafmagnsljósin í Duus-húsunum hans Matthíasar vöktu verðskuldaða athygli. „Þegar frá leið fór að gæta nokkurs áhuga fyrir því að komið yrði upp rafmagnsveitu fyrir almenning í bænum, og árið 1923 stofnuðu nokkrir áhuga- og áhrifamenn hlutafélag með rúmlega 20 manns til þess að hrinda málinu í framkvæmd. Aðalhvatamenn munu hafa verið Ólafur J. A. Olafsson, Guðmundur Hannesson og Árni Geir Þóroddsson"

Rafveitufélag þetta hóf starfsemi sína að Hafnargötu 17 í Keflavík með það veganesti að fá 10 ára rekstrarleyfi Keflavíkurhrepps. Á árinu 1933 þegar þetta leyfi Rafveitufélagsins var útrunnið, keypti Keflavíkurhreppur rafstöðina. Með þeim kaupum var stofnuð núverandi Rafveita Keflavíkur.

Rafmagnið var framleitt með olíumótorum í Keflavík og nágrenni, en þegar rafmagn fékkst frá Ljósafossrafstöðinni við Sog var rekstur mótorrafstöðvarinnar að Hafnargötu 17 lagður niður árið 1946. Með rafmagnsnotkun í Keflavík er hófst 1923, í fyrstu til ljósa einna en síðan einnig til iðnaðar, urðu þáttaskil í starfi handiðnaðarmanna. Ýmsir iðnaðarmenn fengu sér þá vélknúnar vinnuvélar, þar á meðal Magnús Björnsson (f. 1885, d. 1952). Hann setti á stofn vélsmiðju í kjallara íbúðarhúss síns að Hafnargötu 57. Um áramótin 1929-30 fluttist Magnús í nýtt verkstæðishúsnæði að Hafnargötu 55, en nokkrum árum síðar, eða 1935, varð hann meðstofnandi stórfyrirtækis þess tíma, Dráttarbrautar Keflavíkur hf.

Vélaöldin í starfi iðnaðarmanna á Suðurnesjum hófst með stofnun margra smárra og stórra fyrirtækja í handiðnagreinum, en vöxtur og viðgangur þessara fyrirtækja byggðist á rafmagnsnotkun. Enn urðu skipasmiðir á Suðurnesjum landskunnir fyrir athafnir í skipasmíði og þjónustu við fiskiskipaflota landsmanna. Nefna má Peter Wigelund í Innri-Njarðvík, sem var um tíma einhver afkastamesti skipasmiður á Suðurnesjum og byggði vélbáta í nær öllum sveitarfélögum þar.

Bjarni Einarsson veitir forstöðu Skipasmíðastöð Njarðvíkur, einni stærstu og afkastamestu viðgerðastöð fiskiskipaflotans hér á landi. Egill Þorfinnsson var í áratugi yfirsmiður hjá Dráttarbraut Keflavíkur, og eftir skipateikningum hans hafa verið smíðuð á annað hundrað fiskiskipa heima og erlendis á undanförnum áratugum.

Þrír meginflokkar

Við manntal 2. des. 1940 voru íbúar Keflavíkur 1334 og tala íbúða var 201. Til þess að gera sér grein fyrir tíðaranda og þægindum sem Keflvíkingar bjuggu við fyrir 40 árum má geta þess að þetta manntal veitir upplýsingar um að flest hús hafi þá haft rafljós og hitakerfi. í sjötíu húsanna voru vatnsleiðslur, í milli 30 og 40 voru vatnssalerni og í 20 húsum var bað.

Á undanförnum fjórum áratugum hafa iðnaðarmenn á Suðurnesjum því haft ærinn starfa, því síðan þetta manntal var tekið hefur íbúatala Keflavíkur nær fimmfaldast. Keflavík er nú vel byggður bær með öllum nútíma þægindum.

Nú má skipa störfum iðnaðarmanna á Suðurnesjum í þrjá meginflokka:

  1. Þjónustustörf í þágu sjávarútvegs og fiskveiða.
  2. Bygging og viðhald fasteigna á Suðurnesjum.
  3. Margháttuð störf við byggingar og rekstur á Keflavíkurflugvelli.


Skyldur og ábyrgð

Oft er rætt og deilt um það, hver sé ábyrgð iðnaðarmanna. Því er þessu til að svara: Iðnmeisturum ber skylda til að sjá um að öll vinna sé vel og faglega af hendi leyst. Þeir eiga að vera viðskiptavinum sínum til ráðuneytis við efnisval, og þeim ber að gera viðskiptavinum sínum viðvart, ef í verkið er notað eitthvert það efni sem að þeirra dómi er ónothæft. Þeim ber að sjá um, að réttar og stimplaðar teikningar séu til staðar og eftir þeim og verklýsingum sé farið.

Iðnmeisturum ber að sjá um, að allar öryggisráðstafanir séu eins og lög og reglur ákveða, og þeir bera alla faglega ábyrgð á þeim verkum sem unnin eru undir þeirra stjórn. Þeir bera ábyrgð á að farið sé eftir löglegum teikningum og úttektir verksins fari fram eftir þeim. Iðnmeistarar bera alla ábyrgð gagnvart byggingayfirvöldum svo og viðskiptavinum sínum.

Lengi býr að fyrstu gerð segir máltækið, og á það vel við þegar að framkvæmdum er staðið. Því er nauðsynlegt að reynslu og kunnáttu iðnmeistara njóti við frá byrjun verks.


Hvað er iðnaður í dag?

Í inngangi a ð atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands segir m. a. að iðnaður sé atvinnustarfsemi í verksmiðjum, á verkstæðum og á heimilum fólgin í því að breyta gæðum í nýjar afurðir, þar með talin viðgerðastarfsemi, hvort sem unnið er með vélum knúnum orku eða höndum.
Þrjú eru meginhugtök iðnaðar: Heimilisiðnaður, handiðnaður og iðja. Handiðnaður er jafngamall þéttbýli, og 63 handiðnaðargreinar eru nú löggiltar á Íslandi.

Iðnaðarmenn hljóta nú menntun sína í iðnskólum, fjölbrautaskólum, verknámsskólum og þjálfun á vinnustöðum. Að loknu 3-5 ára námi ljúka iðnaðarmenn sveinsprófi. Er iðnsveinn hefur starfað í tvö ár að loknu sveinsprófi, á hann kost á að fá meistarabréf sem gefur honum heimild til að taka nemendur til iðnnáms og rétt til að stunda sjálfstæðan atvinnurekstur með ábyrgð iðnmeistara.

Íslenskur verksmiðjuiðnaður nú á dögum er jafngamall fyrstu raforkuverum hér á landi. Við verksmiðjureksturinn starfar iðnverkafólk, sem hefur í flestum tilfellum hlotið verkþjálfun sína hjá viðkomandi fyrirtækjum.

„Iðnaður er stærsta atvinnugrein landsmanna með um 37% af heildarvinnuafli þjóðarinnar í starfi".


Heimildir

Jónas Jónasson: Íslenzkir þjóðhœttir, þriðja útgáfa, Reykjavík, 1961, bls. 111-112.

Heimir Þorleifsson: Frá einveldi til lýðveldis. Íslandssaga eftir 1830, Reykjavík, 1975, bls. 103.

Skúli Magnússon landfógeti: „Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu" Landnám Ingólfs I, Reykjavík, 1935-1936, bls. 87.

Guðbrandur Jónsson: Þættir úr sögu Reykjavíkur, Reykjavík, 1936, bls. 116-139.

Lýður Björnsson: Frá siðaskiptum til sjálfstœðisbaráttu. Íslandssaga 1550-1830, Reykjavík, 1973, bls. 89.

Gunnar M. Magnúss: Byrðingur, Reykjavík, bls. 9-26.

Guðmundur Finnbogason: Iðnsaga Íslands I, Reykjavík, 1942, bls. 336-338.

Brynleifur Tobíasson: Hver er maðurinn? Reykjavík, 1944, bls. 336-338.

Ragnar Guðleifsson: „Samvinna og samtök í Keflavík" Faxi, Keflavík 8.-10. tbl. 1944, bls. 4.

 

Páll Líndal: Bæirnir byggjast, Reykjavík, 1982, bls. 73.

Eyþór Þórðarson: „Upphaf verzlunar í Keflavík og saga Duus" Faxi, Keflavík, 6. tbl. 1978, bls. 39.

Eyþór Þórðarson: „Saga hafnarmála í Keflavík" Faxi, Keflavík, 4. tbl. 1978, bls. 12.

Sparisjóðurinn í Keflavík", Ísland í dag, Reykjavík, 1961, bls. 497.

Eyþór Þórðarson: „Upphaf vélanotkunar á Suðurnesjum" Faxi, Keflavík, 1. tbl. 1971, bls. 2.

Árni Óla: Strönd og Vogar, Reykjavík, 1961, bls. 64.

Jón Tómasson: „Tveir formenn segja frá" Faxi, Keflavík, 3. tbl. 1945, bls. 1.

Gunnar M. Magnúss: Undir Garðskagavita, Reykjavík, 1963, bls. 258.

Guðni Magnússon: „Magnús Ólafsson" Faxi, Keflavík, 7. tbl. 1964, bls. 12.

Halldór Þorsteinsson: „Halldór frá Vörum" Faxi, Keflavík, 1. tbl. 1980, bls. 16.

Sigurður Helgason: „Síðasta ferð Málmeyjar" Brim og boðar, Reykjavík, 1949, bls. 300-302.

Jón Tómasson: „Hvar var vendipunkturinn í sögu Grindavíkur?" Faxi, Keflavík, 2. tbl. 1980, bls. 52.

Valtýr Guðjónsson: „Rafveita Keflavíkur" Ársrit Sambands íslenzkra rafveitna, Reykjavík. 1953, bls. 173.

Rit Meistarasambands byggingamanna, Reykjavík, 1977, bls. 8.

Ólafur Sigurðsson: Sýningarskrá. Próun 874-1974, Reykjavík, 1974, bls. 120.