header

Formáli
Iðnaðarmannatals Suðurnesja 1984


Fyrr á öldum voru þeir menn fáir, sem stunduðu iðnað eftir nútíma merkingu þessa orðs, þ. e. a. s. störfuðu eingöngu að einni iðngrein. Það er ekki fyrr en á síðustu öld, eftir að fjölga tók í kaupstöðum, að menn fara að gefa sig að slíku. Þó er ekki svo að skilja að í hinu gamla bændaþjóðfélagi hafi ekki verið unnin iðnaðarstörf. Margir góðir gripir hafa varðveist, sem nútíma iðnaðarmenn með áralanga þjálfun væru fullsæmdir af. En í flestum tilfellum var þetta tómstundastarf eða starf, sem menn unnu með búskap eða sjósókn. En þegar þéttbýli óx og þar með verkaskipting í þjóðfélaginu, fóru einstakir menn að helga sig sérstöku handverki, eftir því sem hugur hvers og eins stóð til og þörf var fyrir. Á þessari öld hefir þróunin orðið mjög ör í þessum efnum. Iðnaður er nú óðum að taka sér sess við hliðina á hinum tveim aðalatvinnuvegum þjóðarinnar og virðist sá eini, sem tekið gæti við hinum vaxandi fólksfjölda.

gudni_idn Árið 1867 var svo komið að iðnaðarmannastétt hinnar hálfdönsku höfuðborgar vorrar hafði náð þeim félagslega þroska, að stofnað var félag, sem hlaut nafnið Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík. Þetta félag er enn við lýði, eitt elsta stéttarfélag á landi hér, þótt verkefni þess séu nú orðin minni en áður var með tilkomu mikils fjölda sérfélaga.

Árið 1927 er fyrsta iðnlöggjöfin samþykkt á Alþingi. Eftir það fer að koma meira skipulag á iðnaðarmál, bæði verklega og félagslega. Þann 4. nóv. 1934 er Iðnaðarmannafélag Keflavíkur stofnað og má segja að öllu fyrr hafi það ekki verið mögulegt, svo fáir sem iðnaðarmenn voru hér þá. Þann 10. okt. 1970 kom fram tillaga á fundi stjórnar og fulltrúaráðs félagsins, frá þáverandi formanni þess, Eyþóri Þórðarsyni, um að hefja undirbúning að því að út yrði gefið ágrip af sögu félagsins og iðnaðarmannatal (æviágrip félagsmanna), ásamt ágripi af atvinnusögu á félagssvæðinu, sem er Reykjanesskagi sunnan Hafnarfjarðar. Tillaga þessi hlaut góðar undirtektir og var málið síðan kynnt á almennum félagsfundi þann 23. október sama ár. Var tillagan þar einróma samþykkt og skyldi stefnt að því að ritið yrði í alla staði vandað og kæmi út í tilefni af 40 ára afmæli félagsins 1974. Kosin var þriggja manna nefnd til að annast undirbúning og skyldi hún hafa heimild til „að ráða ritstjóra til hinna þriggja þátta verksins, eftir að tryggt hefir verið lánsfé til að standa straum af kostnaði við fyrsta áfanga verksins eða gerð handrits."

í nefndina voru kosnir: Eyþór Þórðarson, Jón B. Kristinsson og Atli Hraunfjörð. Þegar Atli flutti burt, tók undirritaður sæti í nefndinni. Nefndin sendi út dreifibréf ásamt eyðublaði fyrir æviágrip og skyldu menn hafa skilað því fyrir 1. febr. 1971. Síðan var ráðinn maður til félagsins, Jónas Guðlaugsson, til að vinna að málinu. Starfaði hann við það í nokkra mánuði. En þótt margir brygðust vel við og skiluðu skýrslum sínum fljótt og vel, var um verulegar vanheimtur að ræða. Hefir söfnun þessara æviágripa og úrvinnsla þeirra reynst miklum mun tafsamara verk en nokkurn hafði órað fyrir. Þá komu og fljótlega fram raddir um að láta þetta ekki aðeins taka til félaga Iðnaðarmannafélagsins, eins og upphaflega var ætlað, heldur til allra iðnaðarmanna á Suðurnesjum. Það varð því að ráði að á árinu 1972 var öðrum fagfélögum hér skrifað bréf og boðin þátttaka. Sum þeirra svöruðu jákvætt um hæl, en önnur gáfu ekki afgerandi svör. Það var svo ekki fyrr en á árinu 1976 að samkomulag tókst um þetta milli iðnaðarmanna á Suðurnesjum. Var þá að mestu lokið söfnun gagna innan Iðnaðarmannafélagsins og um 400 æviágrip tilbúin til útgáfu. Sendu nú félögin sameiginlega út nýtt dreifibréf ásamt eyðublöðum og skyldu menn hafa skilað þessum skýrslum fyrir 30. jan. 1977, en bréfið er dagsett 1. des. 1976.

Undir bréf þetta rituðu formenn þessara félaga.

Iðnsveinafélag Suðurnesja Vilhjálmur Vilhjálmsson
Meistarafélag byggingamanna Ólafur Erlingsson
Múrarafélag Suðurnesja Ólafur Jóhannesson
Múrarameistarafélag Suðurnesja Trausti Einarsson
Rafiðnaðarfélag Suðurnesja Sæmundur Pétursson
Rafverktakafélag Suðurnesja Þorleifur Sigurþórsson
Iðnaðarmannafélag Suðurnesja Birgir Guðnason

Þetta jók umfang verksins að miklum mun, auk þess sem mikil fjölgun hefir orðið í iðnaðarmannastéttinni á þessum árum. Þá hefir einnig orðið að ráði að seilast nokkuð aftur í fortíðina og taka með nokkra þá helstu, sem iðnað stunduðu áður fyrr, þó ekki hefðu þeir iðnréttindi, enda voru þau fátíð í þá daga.

Verkið hefir því vaxið allmikið í meðförum frá því, sem upphaflega var ætlað. Þó hefir ekki náðst í alla. Örfáir hafa skorast úr leik og ekki viljað vera með. Einnig má vera að einhverjir hafi farið fram hjá okkur.
Upphaflega mun hafa verið ætlunin að útgáfan yrði kostuð af Iðnaðarmannafélaginu. En fljótlega var frá því horfið og leitað eftir útgáfufyrirtæki, sem standa vildi straum af henni. Var alllengi staðið í sambandi við fyrirtæki, sem að lokum gaf það frá sér á öndverðu árinu 1979. Var þá leitað til annarra og náðist á sama ári samkomulag við bókaútgáfuna Iðunni um að taka að sér útgáfuna og höfum við ástæðu til að vona að vandað verði til hennar eftir föngum.

Eins og áður er getið var upphaflega að því stefnt að bókin kæmi út 1974, á 40 ára afmæli félagsins, en af ástæðum, sem þegar eru nefndar og ýmsum öðrum hefir útgáfan dregist úr hömlu. En söfnun æviskráa var hætt um áramót 1979-80.

Árið 1974 gerðist undirritaður að hluta til starfsmaður Iðnaðarmannafélags Suðurnesja. Meðal annars átti ég að taka við heimildasöfnun og úrvinnslu Iðnaðarmannatals. Hafði ég þetta síðan með höndum næstu árin. En ýmsir aðrir hafa lagt þessu liðsinni sitt. Vil ég sérstaklega nefna formann nefndarinnar, Eyþór Þórðarson, sem verið hefir óþreytandi við þetta verk og lagt hefir allan hug á að gera þetta sem vandaðast. Það hefir því komið í minn hlut að endurrita og leitast við að samræma skýrslur þær, sem borist hafa. Hafi eitthvað færst úr réttu lagi við þá endurritun, verður það að reiknast mín sök. Nefndin fékk svo þjóðkunnan mann, Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli, til að yfirfara og leiðrétta handritið. Einnig hefir útgáfan fengið Sigurð Jónsson málfræðing til aðstoðar við prófarkarlestur. Ennfremur hefur Andrés Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri verið fenginn til að rita stutta starfssögu Iðnaðarmannafélags Suðurnesja og Eyþór Þórðarson til að rita um iðnir og handíðir á liðinni tíð á Suðurnesjum. Flestar ljósmyndir í bókinni tók Heimir Stígsson, Ijósmyndari í Keflavík. Erum við öllum þessum mönnum þakklátir fyrir þeirra störf.

Þó að mikið hafi verið gefið út á undanförnum árum af svonefndum „tölum", þ. e. bókum skyldum þessari, hefir þessi þó nokkra sérstöðu. Hún er ekki bundin við eina iðngrein, svo sem húsasmíði, rafvirkjun o. s. frv. Hinsvegar er hún bundin við afmarkað svæði, þ. e. Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar. En menn koma og fara og verður því oft álitamál, hvort taka á með þennan eða hinn, sem skamman tíma hefir dvalið á svæðinu. Margir þeirra, sem eru í þessu „tali", eru löngu fluttir til annarra landshluta, jafnvel til útlanda. Þá kunna aðrir að vera, sem ættu eins vel heima í þessu riti. En það verður seint við öllu séð og ef ætti að fyrirbyggja allt slíkt, held ég að bókin kæmi aldrei út. En það er von okkar, sem að þessu höfum unnið, að þrátt fyrir alla galla, sem á þessu kunna að vera, verði bókin allgott heimildarrit fyrir seinni tímann og til einhvers fróðleiks og ánægju fyrir þá sem hana eignast.

Guðni Magnússon