header

Iðnaðarmenn á Suðurnesjum

Á þessum vefsíðum er að finna texta og myndir bókarinnar Iðnaðarmannatal Suðurnesja sem kom út árið 1984 á vegum bókaforlagsins Iðunnar. Tilgangurinn er að gera þann mikilvæga fróðleik sem bókin geymir öllum aðgengilegan og opna fyrir möguleika á uppfærslum og viðaukum á æviágripum þúsunda Suðurnesjamanna.

Iðnaðarmannatal Suðurnesja er mikið og vandað ritverk sem segir merka sögu um þróun og viðgang iðnaðarmannastéttarinnar á Suðurnesjum. Iðnaðarmannafélag Suðurnesja beitti sér fyrir skráningunni en þáverandi formaður félagsins, Eyþór Þórðarson, átti frumkvæði að henni. Hann varð síðan formaður nefndar sem annaðist framkvæmd verksins. Guðni Magnússon var ráðinn ritstjóri og annaðist hann söfnun og skráningu æviágripa allra iðnaðarmanna á Suðurnesjum á þessum tíma.

Í ritinu eru alls um 950 æviágrip og þar er getið um 12.000 manna og kvenna. Þar að auki er skrá um iðnnema um áramótin 1970-80, en þá var söfnun æviskráa lokið. Myndir náðust af öllum iðnaðarmönnum sem fjallað er um í ritinu, að fimm undanskildum.

Öll sérgreinafélög iðnaðarmanna á Suðurnesjum tóku þátt í gerð verksins: Iðnsveinafélagið, Meistarafélag byggingamanna, Múrarafélagið, Múrarameistarafélagið, Rafiðnaðarfélagið og Rafverktakafélagið. Aflað var upplýsinga um iðnaðarmenn á Suðurnesjum eins langt aftur og heimildir náðu.

Bókarauki fylgir iðnaðarmannatalinu sjálfu. Er þar fyrst þáttur eftir Eyþór Þórðarson sem nefnist Iðnir og handíðir á Suðurnesjum. Þá er starfssaga Iðnaðarmannafélags Suðurnesja, sem Andrés Kristjánsson ritaði. Loks er í ritinu að finna upplýsingar um sérgreinafélög iðnaðarmanna á þessu svæði 1984.

Aldrei hafa fjölmennari og margreyndari starfsstéttum í einum landshluta verið gerð slík skil. Ritið er ekki einasta upplýsinganáma um iðnaðarmenn á þessu landssvæði, heldur einnig veigamikið framlag til almennrar persónusögu og mannfræði á Suðurnesjum.Guðni Magnússon

Eyþór
Eyþór Þórðarson